Ungir eldvarnafulltrúar heimilanna

Garðar og Þráinn

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fer fram um allt land um þessar mundir. Slökkviliðsmenn heimsækja þá börnin í 3. bekk grunnskólanna og fræða þau um eldvarnir. Börnin fá með sér heim handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð. Að þessu sinni fá börnin einnig að sjá í fyrsta sinn nýja teiknimynd um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg. Þeim gefst jafnframt kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni en heppnir þátttakendur í henni fá afhent vegleg verðlaun á 112-deginum, 11. febrúar.

Hlustið á börnin

Reynslan sýnir að átta ára börn eru mjög móttækileg fyrir fræðslu um eldvarnir og við þekkjum fjölmörg dæmi um að þeim hafi tekist að hafa vit fyrir foreldrum sínum um eldvarnir heimilisins eftir að hafa fengið slökkviliðið sitt í heimsókn. Fræg er til dæmis sagan af stráknum sem tókst að fá móður sína ofan af því að stökkva vatni á eld sem logaði í olíu í potti af því að hann vissi betur en mamman.

Foreldrar barna á þessum aldri eru yfirleitt fremur ungir að árum. Rannsóknir sem Gallup hefur gert fyrir LSS og Eldvarnabandalagið sýna ótvírætt að ungt fólk allt að 35 ára aldri býr við miklu lakari eldvarnir en aðrir. Og þar með börnin á viðkomandi heimilum.

Alltof algengt er að fólk á þessum aldri hafi aðeins einn eða jafnvel engan reykskynjara á heimilinu. Fólk að 35 ára aldri er jafnframt ólíklegra en aðrir til að vera með slökkvitæki og eldvarnateppi á heimili sínu. Þó er margreynt að þessi einfaldi slökkvibúnaður getur komið í veg fyrir stórtjón þegar eldur kemur upp. Slökkvitæki og eldvarnateppi eiga að sjálfsögðu að vera á hverju heimili.

Til öryggis

Efling eldvarna er liður í því að auka öryggi jafnt barna sem fullorðinna á heimilinu. Þegar börnin koma heim úr skólanum eftir að hafa fengið slökkviliðið sitt í heimsókn er því upplagt að foreldrar setjist niður með barninu sínu, kynni sér fræðsluefnið og fari skipulega yfir eldvarnir heimilisins.

Erum við með nógu marga, virka og rétt staðsetta reykskynjara til að tryggja að fjölskyldan vakni og nái að forða sér út ef eldur kæmi upp til dæmis að næturlagi? Höfum við gert og rætt við börnin áætlun um hvernig við yfirgefum heimilið á neyðarstundu? Hvar ætlum við að hittast þegar allir eru komnir út? Er tilskilinn slökkvibúnaður á heimilinu? Kunnum við að nota hann? Er eitthvað í daglegri umgengni á heimilinu sem við getum breytt til að draga úr líkum á að eldur komi upp?

Leiðbeiningar um eldvarnir heimila er að finna í handbók Eldvarnabandalagsins sem börnin fá með sér heim. Við biðlum til foreldra að kynna sér þær og fylgja þeim. Þannig verður heimilið miklu öruggari staður til að vera á.

 

Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins og verkefnastjóri Eldvarnaátaksins

Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar