
Undirbúningur að blómaskeiði í Borgarbyggð
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Þær ánægjulegu fréttir bárust fyrir stuttu að Sundabraut er á áætlun og allt stefnir í að hún verði opnuð eftir aðeins níu ár. Auk Sundabrautar er nú unnið að lagfæringu og tvöföldun Vesturlandsvegar frá Reykjavík alla leið upp í Borgarnes. Þessi langþráða samgöngubót mun opna á ný tækifæri til vaxtar í sveitarfélaginu hvort sem snýr að búsetu eða tækifærum tengdum atvinnulífinu. Með styttingu vegar, bættum samgöngum og betra umferðaröryggi geta skapast tækifæri af þeirri stærðargráður sem við sáum síðast í kringum árið 1980 þegar Borgarfjarðarbrúin var opnuð. Tilkoma Hvalfjarðarganganna breytti miklu fyrir svæðið, tækifæri aukast með hverri samgöngubót.
Að þessu tilefni er morgunljóst að í stærsta þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, Borgarnesi, er nauðsynlegt að fara í stórátak í skipulögðum undirbúningi fyrir þau tímamót sem verða þegar Sundabraut verður opnuð. Ávinningurinn af slíku átaki mun skila sér til allra íbúa sveitarfélagsins óháð búsetu.
Lóðir og skipulag
Eitt af allra brýnustu verkefnum sem þarf að ráðast í strax eru skipulagsmál. Eins og staðan er í dag er mikil vinna fyrir höndum, fáar lóðir eru til úthlutunar og ekki liggur fyrir hvert framtíðarsvæði íbúðabyggðar eða atvinnustarfsemi verður til framtíðar. Skipulagsvinna er tímafrek og því mjög brýnt að vinna við framtíðarskipulag sé ekki sett á bið og ekki dregið úr fjármagni til verkefna er lúta að þessum málum. Hér þarf að bretta upp ermarnar. Skipulagsmál hvers sveitarfélags endurspegla væntingar og er vitnisburður um trú okkar á tækifæri svæðisins til vaxtar. Þetta er jafnframt ein grundvallarforsenda fyrir því að fyrirtæki og íbúar líti jákvæðum augum til fjárfestingar í sveitarfélaginu.
Umboðsmaður fyrirtækja- og atvinnuuppbyggingar
Skipa þarf sérstakan umboðsmann innan stjórnsýslunnar sem hefur það hlutverk að taka að sér verkefni sem snúa að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Tímabært er að þetta viðfangsefni sé nú tekið traustum tökum til að tryggja að öll tengsl, samskipti, ferlar og aðstoð við fyrirtækjaeigendur gangi greiðlega fyrir sig. Þá er mikilvægt að í tengslum við slíka ákvörðun að hugað sé að fasteignagjöld á atvinnustarfsemi og nauðsynlegir innviðir séu samkeppnishæfir og aðlaðandi. Vinna þarf markvisst að því kynna fyrirtækjum í léttum iðnaði, framleiðslu, þjónustu o.fl. þá kosti sem fylgja því að færa starfsemi sína í Borgarbyggð. Fleiri fyrirtæki skila ekki einungis beinum og óbeinum tekjum til sveitarfélagsins, þeim fylgir starfsfólk sem gæti séð þann kost vænlegastan að setjast að í Borgarbyggð.
Skipulagsáætlun höfuðborgarinnar skapar tækifæri fyrir nágrannasveitarfélögin þegar kemur að því að sækja fyrirtæki sem þurfa að hörfa vegna skipulagsmála og kostnaðar við uppbyggingu á höfuðborgarsvæðin.
Íbúar og lífsgæði
Fjölgun íbúa er þekktur ávinningur af bættum samgöngum. En af hverju ætti fólk að velja Borgarbyggð? Ef fjölskyldur og einstaklingar eiga að líta til sveitarfélagsins sem búsetukosts er mikilvægt að huga að þeim þáttum sem skipta máli og lúta að helstu lífsgæðum. Starfsemi leik- og grunnskóla er mjög góð í sveitarfélaginu og kannanir síðustu ára hafa sýnt að íbúar eru ánægðir. Mikilvægt er að nægt pláss sé til staðar í grunn- og leikskólum í Borgarnesi ásamt því að aðstaða til fjölbreyttra tómstunda sé í boði fyrir börn og unglinga. Til þess að við séum samkeppnishæf við önnur sveitarfélög verður aðstaða til íþrótta- og tómstunda fyrir fólk á öllum aldri að vera góð. Þar höfum við verk að vinna. Mikilvægt er unnið sé heildstætt að uppbyggingu á íþróttamannvirkjum til lengri tíma. Nýtt íþróttahús á núverandi stað mun aðeins leysa hluta af þörfinni. Huga þarf að aðstöðu til heilsueflingar og tómstunda á víðum grunni.
Umhverfið skiptir jafnframt miklu máli og því þarf að leggja metnað í fegrun umhverfis og endurbótum á götum og gangstéttum og lagningu göngu- og hjólastíga.
Framtíðin er handan við hornið
Níu ár eru fljót að líða, ef við ætlum okkur að nýta tækifærin sem felast í framtíðinni þá þarf að huga að þeim strax. Við höfum verk að vinna! Ef við náum því vel og örugglega er ástæða til þess að horfa bjartsýn fram á veginn. Framtíðin er í Borgarbyggð.
Guðveig Lind Eyglóardóttir
Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar