Umhverfis- og skipulagsmál

Helga Jónsdóttir

Málefni umhverfis og skipulags verða sífellt mikilvægari í nútímasamfélaginu.  Með skynsamlegum ákvörðunum getur bærinn lagt sitt af mörkum.

Sem dæmi má nefna ákvarðanir um það með hvaða hætti skólamáltíðum er háttað.  Til dæmis með því að ákvarða hvort krafa sé um að ákveðið hlutfall þeirra matvæla sem framreidd eru í stofnunum bæjarins sé lífrænt ræktað.  Bæjarstjórn hefur í hendi sér að byggja inn hvata sem minnka rusl frá heimilum, auka flokkun og minnka almenna sóun.

Við í Miðflokknum viljum leggja okkar af mörkum til að gera Akranes grænna bæjarfélag en það hefur verið.  Við viljum að næsti strætisvagn verði rafknúinn.  Miðflokkurinn vill skoða samstarf við Skógræktarfélagið um gróðursetningu trjáa innanbæjar.

Hvað skipulagsmálin varðar, þá er um að ræða atriði sem spanna allt frá ákvörðunum um skipulag nýrra hverfa og hvar skuli koma tiltekinni gerð starfsemi fyrir innan bæjarfélagsins, yfir í að taka ákvarðanir um viðhald gatna og skipulag þungaflutninga í gegnum bæinn.  Sú staðreynd að akstursleið þungaflutninga hafi ekki verið skilgreind er staða sem ekki verður unað við lengur.

Við í Miðflokknum viljum taka til hendinni í þessum efnum.

Það er mikið verk að vinna hvað viðhald gatna varðar og ekki er uppsöfnuð viðhaldsþörf annarra eigna bæjarins minni.  Með vanrækslu undanfarinna kjörtímabila hefur síhækkandi reikningur vegna viðhaldsleysis verður sendur inn í framtíðina.  Framtíðin er komin hvað þessi mál varðar, viðhaldinu verður ekki frestað lengur.

 

Helga Jónsdóttir

Höf. skipar 1. sæti á lista Miðflokksins á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar