
Um starfsemi Lionsklúbbsins Öglu
Svava Svandís Guðmundsdóttir
Ég var svo lánsöm að ganga í Lionsklúbbinn Öglu fyrir nokkrum árum. Það er góður kostur fyrir aðkomukonur og reyndar allar konur sem vilja taka þátt í samfélaginu. Við Lionskonur höfum verið duglegar að styðja og styrkja þar sem þörf er fyrir aðstoð hér í heimabyggð. Á síðastliðnu ári gaf klúbburinn t.d. gjafir til leikskóla, félagsmiðstöðvarinnar Óðals, Menntaskóla Borgarfjarðar (Kviku í MB) og til Heilsugæslunnar í Borgarnesi. Fleira mætti telja, allt í allt fyrir tæpa eina og hálfa milljón króna.

Frá afhendingu gjafa Öglukvenna til Brákarhlíðar og heilsugæslustöðvar HVE vorið 2023. Greinarhöfundur sitjandi til hægri, en sitjandi til vinstri er Sigrún D Elíasdóttir sem nú er látin. Ljósm. úr safni Skessuhorns/mm
Þetta getum við vegna allra þeirra góðu fyrirtækja og einstaklinga sem standa þétt við bakið á okkur, með rausnarlegum gjöfum og með því sem kaupa rækjur af okkur á hverju hausti og annað sem við höfum verið að selja til fjáröflunar fyrir líknarsjóðinn okkar.
Núna erum við að fara af stað með spennandi happadrætti, þar sem hótel, veitingastaðir og kaffihús gefa veitingar og upplifanir af ýmsu tagi. Vinningshafar fá gjafabréf sem er yfirleitt fyrir tvo. Það var gaman að safna þessum vinningum, sem nánast allir tóku afskaplega vel og gáfu með glöðu geði þessa flottu vinninga! Allt þetta fólk stuðlar að því að við getum sinnt okkar hlutverki hér í nærumhverfinu og þið ágætu lesendur með því að kaupa miðana.
Við erum mjög þakklátar öllum þeim sem studdu okkur og óskum þeim alls góðs. Og auðvitað lofum við því að vera með góðu flottu rækjurnar okkar eftir nokkrar vikur, fólk er farið að spyrja um þær.

Mynd af félögum í Lionsklúbbnum Öglu í skemmtiferð til Edinborgar í apríl á þessu ári.
Fyrir hönd verkefna- og fjáröflunarnefnd Lkl. Öglu
Svava Svandís Guðmundsdóttir
Höf. er formaður fjáröflunar- og verkefnanefndar Lkl. Öglu 2024-2025