Um sóknir og umsóknir

Einar Óskarsson

Tungulæk 3. janúar 2023 (mun vera u.þ.b. miður Mörsugur þó maður horist ekki)

Ágætu lesendur!

Mig langar til að hreyfa hér við málefni sem ekki oft er rætt en er að verða brýnt að gera bragarbætur á. Hér tala ég um kirkjusóknir og starf þeirra sem í gegnum aldir hefur verið nánast óbreytt þó svo að þjóðfélagið hafi gjörbreyst. Við búum enn að mestu leyti að sóknafyrirkomulagi sem stofnað er til mjög snemma í sögu kristni á Íslandi og á tímum sem ekki var í boði að hafa aðra trú en kristna enda lá jafnvel dauðadómur við. Í dag eru þessar sóknir orðnar að löngu uppidöguðu fyrirkomulagi liðinna alda og er ekki komið mál að breyta til?

Það sem fólk virðist sjaldan gera sér grein fyrir er að svona sókn er ekki til fyrir sjálfa sig og vinnur ekki sjálf heldur er þarna að baki einhverjir einstaklingar sem vinna það sem þarf að vinna í þágu heildarinnar sem því miður er í dag iðulega örfáar sálir sem samt þurfa að standa straum af rekstri kirkju, kirkjugarðs í flestum tilfellum og iðulega einnig aðkomu að rekstri prestseturs þó það sé í sjálfu sér annað mál. Í dag er það svo að í Borgarprestakalli eru fimm kirkjusóknir og hafa allar sína kirkju. Af þeim fimm kirkjum eru fjórar friðaðar og aldeilis verulega dýrt að reka. Á bakvið þessar fjórar kirkjur eru nokkrir tugir sóknarfólks og mjög einfalt að sjá að reksturinn er ekki bara erfiður heldur ómögulegur. Við fáum reyndar iðulega fréttir af slæmu ásigkomulagi kirkna víða um land sem eru þó staðsettar í stærri samfélögum en gengur ekki að marki betur en hjá okkur smælingjunum enda stækkar kostnaður með stærra húsi. Og þetta er burtséð frá því að æði margar kirkjubyggingar eru vandræðabyggingar með bæði mikla og dýra galla sem þó eru ekki beint vegna elli.

Nú hef ég komið að starfi Borgarsóknar í allmörg ár og er að verða æði lúinn á að standa í sífelldum umsóknum um styrki í þetta eða hitt verkið sem þó er eina leiðin til að halda í horfinu og þurfa ekki að skammast sín fyrir útlit á kirkju og staðnum. Reyndar finnst mér það alláríðandi spurning hvort ætlandi sé að fámennar kirkjusóknir séu að halda úti kirkjubyggingu sem notuð er sjaldan og rúmar ekki einu sinni venjulega jarðarför í dag. Og þessi friðuðu hús eru alls ekki ódýr og þurfa verulegt viðhald ef ekki á illa að fara. Reyndar virðist mygla ekki koma upp í þeim enda hafa arkitektar að þessum húsum sennilega ekki vitað hvað mygla var og ekki gert ráð fyrir henni.

Það sem ég vil leggja til áður en ég hætti þessum sóknarafskiptum mínum er að endurhugsað verði allt sóknaskipulag og þessi dýri baggi tekinn af herðum örfárra einstaklinga sem kannski eru að taka á sig óvinnandi verk. Ef við Íslendingar viljum halda í gamlar byggingar er það bara í fínu lagi en þegar ekki er til fjármagn til að gera slíkt sé ég ekki að mögulegt sé að leggja baggann á herðar þessa örfáa sóknarfólks víða um land. Og um leið og ég lýsi hér eftir arftaka mínum í sóknarformennsku í Borgarsókn vil ég benda á einn þátt sem er aðgengi að kirkjum og trúariðkun. Slíkt er nú svo margfalt auðveldara en var fyrir aðeins 100 árum og sú leið sem farin var á fæti eða hesti fyrir 100 árum er nú farin á nokkrum mínútum í bíl. Því sé ég ekki þörfina á öllum þessum kirkjubyggingum og miklu fjármagni sem í þær fer sem áreiðanlega væri þörf fyrir á æði mörgum stöðum annarsstaðar.

(Ekki gleyma að starf sóknarformanns í Borgarsókn er laust)

Með vinsemd og virðingu,
Einar Óskarsson