Um rammasamning sem Borgarbyggð er aðili að

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Borgarbyggð er aðili að öllum rammasamningum Ríkiskaupa að frátöldum rammasamningi um kjöt og fisk sem sveitarfélagið sagði sig frá sumarið 2020. Borgarbyggð hefur verið aðili að rammasamningunum um árabil og er það ekki nýtilkomið að sveitarfélagið sé aðili að þessum samningum. Flest sveitarfélög, eins og Borgarbyggð, eru aðilar að nær öllum rammasamningunum.

Opinberum aðilum, þar á meðal sveitarfélögum, ber að bjóða öll innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ákvörðuð eru í lögum. Tilgangur rammasamninga er að koma í veg fyrir misbresti og stuðla að hagkvæmari innkaupum. Ríkiskaup sjá um útboð fyrir opinbera aðila sem sett eru fram í rammasamningum. Borgarbyggð fær í gegnum rammasamninga fasta afslætti á vöru og þjónustu sem öllum aðilum rammasamnings bjóða og er alla jafna um verulega afslætti að ræða. Í stærri innkaupum gerir Borgarbyggð verðkannanir og örútboð innan rammasamninga. Með aðild sparast bæði tími og peningur við að fara í tímafrekt útboðsferli. Borgarbyggð er með þessum hætti að nýta skattfé sveitarfélagsins með sem hagkvæmustum hætti, öllum íbúum til hagsbóta.

Stefna Borgarbyggðar er að meta reynsluna af því að nýta einstaka rammasamninga áður en til endurnýjunar núgildandi samninga kemur og taka þá meðvitaða ákvörðun um hvort hagsmunum Borgarbyggðar er borgið með því að vera aðilar að viðkomandi rammasamningi eða hvort sveitarfélagið segi sig frá einstaka rammasamningum. Þá verði heildarhagsmunir sveitarfélagsins metnir, m.a. m.t.t. vöruframboðs og samkeppni.

Rammasamningar eru alla jafna gerðir til tveggja ára og oft með framlengingarheimild, þó það sé mismunandi milli samninga. Þegar útboðsgerð Ríkiskaupa á tilteknum rammasamningi stendur yfir getur Borgarbyggð sagt sig frá útboðinu, þ.e.a.s áður en samningur er kominn á. Ekki er hægt að segja samningi upp á gildistíma samnings, aðeins þegar til framlengingar eða nýs útboðs kemur.

Ekki eru öll þjónustu- og vörukaup í rammasamningum. Í slíkum tilvikum fer sveitarfélagið í verðkönnun eða útboð, allt eftir umfangi viðskiptanna.

Borgarbyggð er skylt að kaupa eftir rammasamningum þeim sem sveitarfélagið er aðili að. Mjög ólíkar skorður eru settar í hverjum rammasamningi og kaup undir eða yfir nánar tilteknum fjárhæðum eru meðhöndluð á ólíkan hátt. Aðili að rammasamningi getur sett ákveðin skilyrði í örútboði, m.a.  varðandi gæði, útlit, afhendingu og afgreiðslu. Skilyrðin verða að vera rökrétt út frá þeirri vöru eða þjónustu sem verið er að kaupa inn. Það má t.d. ekki setja það skilyrði við kaup á tryggingum að tryggingarfélagið sé með afgreiðslu í sveitarfélaginu.

Þrátt fyrir rammasamninga á Borgarbyggð í töluverðum viðskiptum við fyrirtæki í Borgarbyggð. Nærtækasta dæmið er jólagjöf sveitarfélagsins til allra starfsmanna, þar sem öllum seljendum vöru og þjónustu í Borgarbyggð var boðið að taka þátt í verkefninu. Fengu starfsmenn sveitarfélagsins gjafabréf að verðmæti kr. 10.000,- sem þeir gátu notað hjá tilteknum atvinnurekendum í sveitarfélaginu. Enn fremur eru stærri verk boðin út, ýmist með opnum útboðum og lokuðum og verður því haldið áfram með óbreyttum hætti.

Borgarbyggð hyggst standa fyrir kynningu Ríkiskaupa á rammasamningum sem hugsað væri fyrir seljendur þjónustu og vöru, þar sem vonast er eftir því að seljendur sjái hag sinn í að gerast aðili að samningnum og til að auka þekkingu á réttindum og skyldum sveitarfélagsins til rammasamninganna.

 

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Höf. er sveitarstjóri Borgarbyggðar