Um mikilvægi íþróttastarfs í Borgarbyggð

Unnur Jónsdóttir

Hreyfing hefur margvísleg góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks og hefur fjölþætt forvarnargildi hjá öllum aldurshópum. Síðustu áratugina hefur samfélag okkar breyst talsvert með aukinni notkun snjalltækja, aukinni kyrrsetu og aukinni tíðni offituvandamála, með þetta til hliðsjónar þurfum við að bregðast við og reyna eftir fremsta megni að styðja við bæði skipulagt íþróttastarf sem og aðgengi almennings að útivistarsvæðum, líkamsræktaraðstöðu og sundlaugum.

Í héraðinu okkar er mikið af flottu íþróttafólki sem náð hefur langt í sinni grein, hvort sem það er einstaklingsgrein eða hópíþrótt. Einnig búum við vel með flott fólk sem stendur að baki þessum árangri, þjálfarar, foreldrar og áhugafólk sem tilbúið er að vinna íþróttunum til heilla.

Þrátt fyrir það eru of margir bæði börn og fullorðnir sem ekki stunda reglulega hreyfingu. Til að auka þátttöku í skipulagðri hreyfingu þarf að hafa hana aðgengilega og fjölbreytta, fyrir suma henta hópíþróttir en aðrir kjósa einstaklingsgreinarnar, sumir hafa gaman að boltaíþróttum á meðan þær henta ekki öllum.

Með tilkomu tómstundabílsins hafa möguleikar barna og unglinga, úr dreifbýlinu, á að sækja æfingar í Borgarnes aukist gífurlega og hjálpar það mikið til við að auka þátttöku. Áhugavert væri að skoða möguleikann á að fjölga ferðum tómstundabílsins og eins hvort hægt væri að nýta íþróttamannvirkin á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum betur með fjölbreyttari akstursleiðum. Þannig mætti í leiðinni auka samstarf íþróttafélaganna í héraðinu og auka möguleikana á að ná í lið í fleiri aldursflokkum og eins rýmka um íþróttahúsið í Borgarnesi þar sem hver æfingatími er umsetinn.

Einnig hefur tilkoma íþrótta- og tómstundaskólans breytt miklu fyrir yngstu árgangana og er það mjög jákvætt að geta stytt „vinnudag“ þeirra með þessu móti og gera þeim sem búa í dreifbýlinu kleift að æfa íþróttir beint eftir skóla og fá skólaakstur heim að þeim loknum.

Ég myndi einnig vilja sjá sveitarfélagið okkar setja sér framtíðaráætlun hvað stækkun og uppbyggingu íþróttamannvirkja varðar. Íþróttahúsið í Borgarnesi er eins og áður segir fullnýtt og barist um hvern æfingatíma þar. Árið 2013 setti Ungmennasamband Borgarfjarðar upp áætlanir, annars vegar 4 ára og hins vegar 10 ára, að því hvernig sambandið myndi vilja haga uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarfirði. Var sú vinna unnin að beiðni sveitarfélagsins og var hluti af samstarfssamningi þess við UMSB. Fátt af því sem þar er sett á 4 ára áætlunina hefur komist í verk og ekkert af 10 ára áætluninni. Þessu þarf að breyta og sveitarfélagið þarf að mynda sér skýra framtíðaráætlun ætli það að halda sér samkeppnishæfu við önnur sveitarfélög hvað íþróttamannvirki varðar.

Höldum áfram að leita leiða til að hámarka nýtingu íþróttamannvirkjanna okkar og byggja upp íþróttaaðstöðuna í Borgarbyggð.

 

Unnur Jónsdóttir

Höfundur skipar 10. sæti á lista VG í Borgarbyggð

Fleiri aðsendar greinar