Um málefni Fjöliðjunnar á Akranesi

Silvía Kristjánsdóttir

Kæra bæjarstjórn!

Ég er nýbúi á Akranesi. Mér finnst að mörgu leyti bærinn vera til fyrirmyndar. Það er þó eitt sem sker sig úr og það er sá metnaður sem Akranesbær hefur lagt í málefni fatlaðs fólks. Nú hef ég síðan í október starfað í Fjöliðjunni og kann afskaplega vel við mig þar. Ég er iðjuþjálfunarnemi og nýt þess að vinna í þverfaglegu umhverfi þar sem hagsmunir skjólstæðinga okkar eru settir í fyrsta sæti. Við hér á Akranesi höfum fulla burði til þess að svo verði gert áfram með glæsibrag.

Þessi starfsemi er til mikillar fyrirmyndar og ég veit til þess að önnur samfélög líta upp til Akranesbæjar þegar talað er um Fjöliðjuna. Ég hef heyrt úr ólíkum áttum, bæði frá samnemendum mínum og fólki í öðrum sveitafélögum, að á Akranesi sé unnið metnaðarfullt, fjölbreytt og gott starf með fötluðu fólki. Það er áberandi hversu faglegt starfið er í Fjöliðjunni og unnið hörðum höndum að mæta kröfum og þörfum allra í vinnunni. Virðing, traust og umbyrðarlyndi upplifi ég alla daga. Það skýtur því skökku við þegar ekki er hlustað á ráðleggingar þessara fagmanna þegar kemur að aðstöðu fyrir okkar skjólstæðinga.

Það er held ég öllum í hag að aðstöðumál Fjöliðjunnar séu unnin í sátt og með fagmennsku að leiðarljósi. Ég hvet því bæjarstjórn til þess að hlusta á þær ráðleggingar sem fagfólk Fjöliðjunnar hefur lagt til.

Því nú er svo komið að bæjarstjórn hefur ákveðið að starfsemin verði í samfélagsmiðstöð við Dalbraut sem gæti kannski hentað hluta starfseminnar. En þegar á að sameina marga ólíka hópa í eitt rými verður að vanda sig. Margt er gott en þó er mjög margt vanhugsað og þar langar mig að minna aftur á að hlusta á fagmennina okkar. Því það er ekki að ástæðulausu að bæjarfélagið okkar er til fyrirmyndar í málefnum fatlaðs fólks. Því jú við búum að frábæru fólki; menntuðu, reynslumiklu og áhugasömu fólki sem leggur allt sitt í framúrskarandi þjónustu. Þar viljum við standa áfram, þar viljum við vera – til fyrirmyndar og þangað ættum við að stefna – að vera á toppnum sem heilbrigt, flott og fjölbreytilegt samfélag með málefni fatlaðs fólks hátt sett.

Hlustum og verum til fyrirmyndar.

Kveðja,
Silvía Kristjánsdóttir