Um lagaumgjörðina þegar breyta á aðalskipulagi

Gunnlaugur A Júlíusson

Mörgun þykir skipulagsmál sveitarfélaga vera flókin, seinvirk og erfitt sé fyrir hinn almenna íbúa að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þegar breytingar á aðal- eða deiliskipulagi er í undirbúningi. Mikilvægt er allra hluta vegna að einstakir íbúar og félaga- eða hagsmunasamtök af ýmsum toga séu upplýst um þá möguleika sem þeim eru gefnir í því lagaumhverfi sem sveitarfélögin vinna eftir.

Að undanförnu hefur til dæmis átt sér stað nokkur umræða um fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 þar sem gert verður ráð fyrir að landsvæði á Hamarslandi fyrir ofan Borgarnes verði tekið undir skotæfingasvæði. Hér verður ekki farið út í umræðu um rök með eða móti því verkefni heldur vildi ég aðeins skýra þann feril sem unnið er eftir við breytingar á aðalskipulaginu þannig að öllu væri til skila haldið eftir því sem frekast er unnt.

Það er til efs að í nokkrum þeim málum sem falla undir starfssvið og ábyrgð sveitarstjórna sé eins formfast ferli hvað varðar kröfur um kynningu og upplýsingar til þeirra sem málið varðar eins og í málum sem falla undir skipulagslög nr. 123/2010. Möguleikar íbúa og hagsmunasamtaka á að koma skoðunum sínum, sjónarmiðum og athugasemdum á framfæri eru einnig á fáum sviðum ef nokkrum eins tryggðir og í málum sem falla undir skipulagslög nr. 123/2010. http://www.althingi.is/lagas/147/2010123.html Skipulagsstofnun hefur lögbundið eftirlit með allri málsmeðferð og að tryggt sé að sveitarstjórn fari í einu og öllu eftir ákvæðum skipulagslaga um verklag, kynningu, samskipti við íbúa og viðbrögð við þeim athugasemdum sem kunna að berast.

 

Fyrir nokkrum misserum var hafinn undirbúningur að áþekkri breytingu og nú er í undirbúningi á aðalskipulagi Borgarbyggðar vegna fyrirhugaðrar staðsetningar skotæfingasvæðis á sama stað og nú. Tekin var saman lýsing að fyrirhugaðri breytingu og hún kynnt á í íbúafundi. Það bárust ýmis mótmæli við fyrirhugaðri breytingu. Gagnrýnt hefur verið að innsendum ábendingum við lýsinguna hafi ekki verið svarað af sveitarstjórn. Því er meðal annars haldið fram í grein í Skessuhorni frá 4. janúar sl. Því þykir rétt að fara yfir vinnuferlið við mál sem þessi svo ekkert fari milli mála í þeim efnum.

 

Í skipulagslögum segir svo

Grein nr. 30: Gerð aðalskipulags, kynning og samráð.

Þegar vinna við gerð aðalskipulagstillögu hefst skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þar sem fram kemur hvaða áherslur sveitarstjórn hafi við aðalskipulagsgerðina og upplýsingar um forsendur og fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð við skipulagsgerðina gagnvart íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum. Leita skal umsagnar um hana hjá Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum og kynna hana fyrir almenningi. Í skipulagsreglugerð er kveðið nánar á um lýsingu aðalskipulagsverkefnis og kynningu hennar.

Áður en tillaga að aðalskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, forsendur hennar og umhverfismat, þegar við á, kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Skal kynningin auglýst með áberandi hætti. Einnig skal tillagan kynnt sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga og svæðisskipulagsnefnd á þeim svæðum þar sem starfandi er slík nefnd. Tillagan skal jafnframt kynnt öðrum sveitarfélögum sem kunna að eiga hagsmuna að gæta vegna skipulagsins.

 

Að lokinni kynningu skv. 2. mgr. skal aðalskipulagstillagan lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu. Sveitarstjórn skal að lokinni umfjöllun sinni senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar. Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst henni skal tillagan auglýst óbreytt skv. 31. gr. Telji Skipulagsstofnun að tillagan fullnægi ekki settum kröfum um aðalskipulag skal hún leita samkomulags við sveitarstjórn um breytingar. Náist ekki samkomulag er sveitarstjórn engu síður heimilt að auglýsa tillöguna en athugasemdir Skipulagsstofnunar skulu þá jafnframt auglýstar og liggja frammi með tillögunni.

 

ATH: „Hér kemur fram að það eigi að kynna lýsingu á fyrirhugaðri tillögu að breytingu á gildandi aðalskipulagi á fullnægjandi hátt fyrir íbúum sveitarfélagsins ásamt því að hún sé lögð fyrir Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun fer yfir málsmeðferð alla og gengur úr skugga um að öllum formsatriðum sé fullnægt, meðal annars hvort um sé að ræða óverulega eða verulega breytingu á gildandi aðalskipulagi. Einnig er farið yfir hvort lögbundin kynning hafi farið fram á fullnægjandi hátt. Þeir sem málið varðar hafa kost á á þessu stigi að leggja fram sín viðhorf og ábendingar. Innkomnar ábendingar eru yfirfarnar og lagt mat á hvort eigi að taka tillit til þeirra við endanlega útfærslu á tillögu um fyrirhugaða breytingu á aðalskipulaginu áður en hún er formlega auglýst. Ábendingum þarf ekki að svara formlega á þessu stigi málsins. Að þessu öllu loknu er tillagan auglýst formlega samkvæmt ákvæðum 31. gr. skipulagslaga. Sú grein hljóðar svo:“

 

Grein nr. 31: Auglýsing aðalskipulagstillögu.

Sveitarstjórn skal auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu. Tillagan skal liggja frammi hjá Skipulagsstofnun og á skrifstofu hlutaðeigandi sveitarfélags eða á öðrum opinberum stað og vera auk þess aðgengileg á netinu.

Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en athugasemdafrestur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum.

 

ATH: „Í þessari grein er kveðið skýrt á um hvernig staðið skuli að auglýsingu á formlegri tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Einnig er kveðið á um rétt viðkomandi hagsmunaaðila og annarra sem málið varðar að leggja fram formlegar athugasemdir, hvaða frestur er gefinn þar að lútandi og hvert skuli skila athugasemdum.

 

Í 32. gr. skipulagslaga er kveðið á um málsmeðferð formlegra athugasemda sem gerðar eru við auglýsta tillögu. Þar kemur fram að sveitarstjórn skuli taka afstöðu til þeirra athugasemda sem hafa borist og hvort þær séu þess eðlis að gerðar verði breytingar á hinni auglýstu tillögu. Skipulagsstofnun fer yfir hina auglýstu tillögu, þær athugasemdir sem borist hafa vegna hennar og umsögn og röksemdir sveitarstjórnar varðandi þær. Einnig er kveðið á um að sveitarstjórn skuli svara öllum innkomnum athugasemdum og kynna afgreiðslu og umsögn sveitarstjórnar um þær. Hér kemur skýrt fram að svetiarstjórn skuli svara innsendum athugasemdum sem gerðar eru við hina auglýstu tillögu. Undirbúningur að breytingu á aðalskipulagi vegna undirbúnings að skotæfingasvæði komst aldrei svo langt að tillage þess efnis væri auglýst. Því voru ekki gerðar athugasemdir á þessu stigi málsins og þeim því ekki svarað“

 

Grein nr. 32: Afgreiðsla og gildistaka aðalskipulags.

Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal sveitarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Ákveði sveitarstjórn að breyta tillögu að aðalskipulagi í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 31. gr.

Þegar sveitarstjórn hefur samþykkt tillögu að aðalskipulagi skal sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun tillöguna, ásamt athugasemdum og umsögn sveitarstjórnar um þær, innan tólf vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir skv. 31. gr. rann út. Jafnframt skal senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu afgreiðslu og umsögn sveitarstjórnar um athugasemdir og auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar.

Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að tillaga að aðalskipulagi barst henni staðfesta aðalskipulagstillöguna og auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Telji Skipulagsstofnun að synja beri aðalskipulagi staðfestingar eða fresta staðfestingu þess að öllu leyti eða hluta skal hún senda tillögu um það til [ráðherra] 1) innan fjögurra vikna frá því að henni barst tillaga að aðalskipulagi. Skal tillagan rökstudd með greinargerð þar sem fram skal koma hvort form- eða efnisgallar séu á afgreiðslu sveitarstjórnar eða gerð skipulagsins. Áður en ráðherra tekur ákvörðun skal hann leita umsagnar sveitarstjórnar. [Ráðherra skal synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag innan [þriggja mánaða] 2) frá því að tillaga frá Skipulagsstofnun barst ráðuneytinu.] 3)  Ráðherra synjar, frestar eða staðfestir aðalskipulag skv. 4. mgr. Staðfest aðalskipulag skal auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Slíkt aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu [ráðherra] 1) og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Stefna aðalskipulags er bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

 

ATH: „Hér að framan hefur verið farið yfir það verklag sem unnið er eftir við undirbúning að og breytingu á breytingu á aðalskipulagi. Það er almennt viðurkennt að möguleikar þeirra aðila sem málið varðar til að koma ábendingum og formlegum athugasemdum á framfæri eru mjög miklir. Það verður hins vegar að gera það formlega og samkvæmt ákvæðum skipulagslaga á hinum mismunandi stigum málsins. Skipulagsstofnun hefur síðan eftirlit með að sveitarstjórn fari eftir tilskyldum ákvæðum skipulagslaga varðandi kynningar- og auglýsingaferli, hún fer yfir málsmeðferð, rökstuðning og afgreiðslu sveitarstjórnar hvað varðar innkomnar athugasemdir.“

 

Ég vona að þessi samantekt skýri út það vinnulag sem unnið er eftir þegar breyting á aðalskipulagi er í undirbúningi og vinnslu.  Hér hefuur einnig verið reynt að skýra hvaða möguleika þeir sem málið varðar hafa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig það er gert á mismunandi stigum málsins.

 

Gunnlaugur A Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar