Um hagræðingu

Haraldur Benediktsson

Tilkynning um lokun útibúa VÍS á landbyggðinni er talandi dæmi um hvernig fyrirtæki hér virðast líta á landsbyggðina. Það er ágætt að hafa tekjur af viðskiptum við fólk og fyrirtæki þar. En þau líta á sem aukaatriði hvernig þau þjónusta þar fólk og fyrirtæki og hvort þau leggja eitthvað af umfangi viðskipta sinna til samfélaganna. Í þessu tilfelli hvort fólk þarf að sækja og reka erindi til Reykjavíkur og hvort þau sjá sóma sinn í að hafa starfsemi, störf og kaup á þjónustu og vörum í þeim byggðalögum sem þau vilja sjálf eiga viðskipti við.

Auðvitað lokum við ekki augum fyrir breyttu samfélagi og breytingum í kjölfar tæknibreytinga. Þannig hefur heimsóknum mínum í bankaútbú fækkað verulega. En tilfinning mín er að erindum til tryggingafélagsins hafi frekar fjölgað, enda hefur framboð á þjónustu þar aukist, rekstur á mínu búi orðið flóknari og lengi mætti telja.

Hvert stefnum við?

Það er athyglisvert að sjá svör VÍS við gagnrýni. Hagræðing. Já gott og blessað, hvað munu iðgjöld mín lækka með þessari hagræðingu? Eða erum við að borga hærri ávöxtun til eigenda? Nú eða að bæta upp slaka stjórnun á félaginu?

Spyrja má líka, hvort ekki hefði verið meiri hagræðing af því að flytja höfuðstöðvar VÍS á Akranes – eða annan stað sem er utan hæsta fasteignaverðs landsins.

Að standa með sinni byggð, atvinnu og mannlífi byrjar hjá okkur sjálfum. Við veljum hvar við verslum, kaupum vörur og þjónustu. Það skiptir máli við hverja við verslum. Það er þess vegna sem mitt heimili velur að versla sem allra mest í Einarsbúð, fyrirtæki sem hefur þjónað íbúum í nágrenninu í 80 ár. Auk þess að skipta við Apótek Vesturlands, nota tannlæknaþjónustu í heimabyggð og framvegis. Ef við erum ekki meðvituð um áhrif okkar eigin hegðunar – þá verður þessi þróun hraðaði og áhrifameiri.

Getur það verið eðlilegt að íbúi í Grundarfirði þurfi að aka 80 km í næsta bankaútibú? Gat aldrei komið til greina að semja um daglega afgreiðslustarfsemi í samstarfi við önnur fyrirtæki? Er engin hugsun hjá þessum fyrirtækjum á að við erum fólk sem búum á landsbyggðinni sem þurfum líka þjónustu en ekki bara hirða tekjur af viðskiptum við okkur?

Við sjáum hvert þetta leiðir okkur – ef við sjálf spyrnum ekki við fótum. Tilkynning og áform VÍS um að segja upp starfsmönnum, loka afgreiðslum, er nauðsynlegt að taka sem hvatningu til vitundarvakningar.  Stór þjónustufyrirtæki þurfa líka að bera sína ábyrgð.

 

Haraldur Benediktsson

Höf. er fyrsti þingmaður NV kjördæmis.