Um fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar

Valgarður og Gerður

Á rekstrarárinu 2017 skilar Akraneskaupstaður um 240 milljóna króna afgangi sem er afar ánægjuleg niðurstaða. Einnig er gott að sjá lykiltölur í rekstri bæjarfélagsins sem benda til þess að reksturinn sé traustur. Þar má nefna að skuldahlutfall fer lækkandi, eiginfjárhlutfall er 50%, veltufjárhlutfall er yfir 1 og framlegðarhlutfall rekstrar hækkar verulega. Rekstur bæjarfélagsins er á góðri leið og því fagna að sjálfsögðu allir sem vilja hag Akraneskaupstaðar og Akurnesinga sem bestan.

 

Árangur tveggja bæjarstjórna

Rétt er að halda því til haga að þessum árangri var ekki náð á einum degi. Fast var tekið á rekstri bæjarins á kjörtímabilinu 2010-2014, þegar Samfylkingin, Framsóknarflokkur og Vinstri græn mynduðu meirihluta í bæjarstjórn. Allt kapp var lagt á að koma Akraneskaupstað úr slæmri stöðu, dregið var saman í rekstri og skuldir greiddar niður. Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar bar gæfu til að halda áfram sömu stefnu í rekstri kaupstaðarins og er það þakkarvert.

 

Óvæntar tekjur

Á fundi bæjarstjórnar þann 8. maí síðastliðinn lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fram bókun þar sem bent er m.a. á að 20% af tekjum bæjarsjóðs koma frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er sá hluti um 236 milljónir króna umfram áætlun á árinu 2017. Þessi upphæð er nánast sú sama og rekstrarafgangurinn á árinu.

 

Framkvæmdum frestað

Jákvætt er að skuldahlutfallið fari lækkandi því það er dýrt að skulda of mikið. Hafa þarf þó í huga að það getur líka verið dýrt að fara ekki í nauðsynlegt viðhald á fasteignum og götum bæjarins. Fjárfestingarhluti reikningsins er um 221 milljón króna undir áætlun, sem þýðir að ekki var nýttur allur sá peningur sem áætlaður var í endurgerð gatna og aðrar fjárfestingar á síðasta ári. Aftur sjáum við þarna upphæð sem er nálægt rekstrarafganginum, upphæð sem átti að framkvæma fyrir á árinu 2017 en var ekki gert.

Um leið og Skagamenn geta fagnað bættri fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar, þá dylst engum að mörg verkefni hafa beðið lengi og bíða enn. Það þarf t.d. ekki annað en að reyna að keyra í vinnuna með opinn kaffibolla í bílnum til að átta sig á ástandi gatnanna í bænum. Mannvirki kaupstaðarins þurfa sárlega á viðhaldi að halda og margar stofnanir bæjarins bíða enn eftir að endurheimta það sem skera þurfti niður í kjölfar hrunsins fyrir 10 árum síðan.

 

Skilum þangað sem skorið var niður

Við frambjóðendur Samfylkingarinnar á Akranesi viljum tryggja það að bætt staða bæjarfélagsins skili sér fyrst og fremst til þeirra framkvæmda sem þegar hafa beðið of lengi og til þeirra þjónustuþátta bæjarins þar sem skera þurfti niður þegar skóinn kreppti. Næg verkefni eru framundan og því er nauðsynlegt að hafa reksturinn í góðu jafnvægi til að geta tekist á við þau. Nú eru alla vega til peningar í sjóðum bæjarins til að sinna einhverjum þeirra verkefna sem hafa setið á hakanum síðastliðin ár.

 

Valgarður Lyngdal Jónsson og Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir

Höfundar skipa 1. og 2. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.