Tvöföldun Vesturlandsvegar – Grunnafjörður

Elín Ósk og Ragna

Svarbréf sveitarstjórnarfulltrúa Íbúalistans við bréfaskrifum Ólafs Óskarssonar

Undirritaðar tóku undir og samþykktu svarbréf sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar við bréfi Ólafar Óskarssonar nú í lok febrúar mánaðar. Þetta var ágætis bréf sem fór yfir hinar ýmsu staðreyndir málsins eins og það kemur fyrir augum sveitarstjórnar. Í okkar huga vorum við og erum ekki að segja að Grunnafjarðar leiðin sé ekki í boði, þó við getum ekki fullyrt hver hugur meirihluta sveitarstjórnar er.

Það er hægt að taka undir margt sem fram kemur í bréfaskriftum Ólafs.

Við erum á því að bæta verður Grunnafjarðar leiðinni inn í tillögur VSÓ fyrir Vegagerðina svo hægt sé að meta alla þá kosti sem komnir eru fram. Við erum þó ekki með þessu að segja að það sé leiðin sem eigi að verða fyrir valinu, það er ekki hægt að segja til um það fyrr en sú tillaga er komin inn og allir þættir taldir með, umhverfisþættir, vegalengdir, öryggi o.fl.

Það er hvorki þessarar sveitarstjórnar né næstu að segja til um eða útiloka mögulega legu Vesturlandsvegar í gegnum sveitarfélagið, það er með öllu rangt að útiloka eina leið án þess að hún sé metin eins og hinar fjórar leiðirnar sem komnar eru fram.

Í lokin viljum við þakka Ólafi Óskarssyni fyrir að taka af skarið og koma sínum hugleiðingum og skoðunum á framfæri. Okkur finnst mikilvægt að fá að heyra og lesa skoðanir íbúa, sumarbústaðaeigenda og annarra sem um Hvalfjarðarsveit fara. Íbúasamráð er mikilvægur hluti af lýðræðislegu og góðu sveitarfélagi.

 

Fulltrúar Íbúalistans í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar,

Elín Ósk Gunnarsdóttir og Ragna Ívarsdóttir