Tvöföldun á þjóðvegi 1 á Kjalarnesi þolir enga bið

Rakel Óskarsdóttir

Í íbúakönnunum á Vesturlandi, sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa unnið með reglubundnum hætti síðan árið 2004, kemur glöggt fram að Vestlendingar eru ósáttari í dag með stöðu samgöngumála en þeir voru áður fyrr. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að væntingar íbúa um samgöngubætur hafa ekki gengið eftir og viðhaldi vega hefur hrakað mikið.

Vegna þessa m.a. réðust Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi í þá vinnu að koma saman samgönguáætlun fyrir allt Vesturland þar sem gerð er grein fyrir stöðu mála og hvaða framkvæmdir eru mikilvægastar fyrir landshlutann.  Skipaður var sérstakur vinnuhópur um verkefnið undir forustu Gísla Gíslasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna sem lauk vinnu síðla árs 2016. Áætlunin var svo samþykkt af stjórn SSV snemma árs 2017, eftir að hafa verið til umræðu í öllum sveitarfélögunum á Vesturlandi.  Um þessa áætlun hefur verið mikil eining á milli sveitarfélaganna og sátt um forgangsröðun verkefna.

Í áætluninni er einnig horft til verkefna í öðrum landshlutum sem skipta okkur íbúa Vesturlands gríðarlega miklu máli, vegna þess að þau eru tenging okkar við höfuðborgina. Þar er ég fyrst og fremst að tala um Sundabraut og tvöföldun vegar á Kjalarnesi.  Það skiptir okkur Vestlendinga miklu máli að sem fyrst náist niðurstaða á milli ríkis og borgar um lagningu Sundabrautar þannig að hægt sé að hefja framkvæmdir við þessa miklu samgöngubót.

Í byrjun árs 2018 hefur umræðan um ástand og fyrirhugaðar framkvæmdir við Þjóðveg 1 á Kjalarnesi orðið mun háværari á meðal almennra notenda og hagsmunaaðila.  Það er öllum ljóst að á sama tíma og umferð hefur aukist mikið, en árið 2017 fóru að meðaltali um 7.000 bílar um veginn daglega, hefur ástand hans versnað til muna.  Djúp hjólför í veginum gera hann mjög hættulegan í rigningu og vetrarveðri.  Á árinu 2018 var áætlað að hefja framkvæmdir við tvöföldun vegarins og fyrirhugað að verja til þess 700 m.kr., en nú bendir flest til þess að aðeins verði varið um 250 m.kr. til framkvæmda við veginn, eyrnamerkt hringtorgi við Esjumela.  Við þetta verður ekki unað.

Á Haustþingi SSV 2017 var eftirfarandi ályktað um þjóðveg 1. „Tvöföldun vegar á Kjalarnesi er óhjákvæmileg framkvæmd vegna aukinnar umferðar og öryggis vegfarenda m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Samkvæmt vegáætlun á verkefnið að hefjast árið 2018 og er nauðsynlegt að svo verði. Þá er mikilvægt að hefja nú þegar undirbúning að veglínu og framkvæmdaáætlun um endurbætur á Þjóðvegi 1 um Hvalfjarðarsveit í Borgarnes. Því skorar Haustþing SSV 2017 á stjórnvöld að hefja þegar í stað vinnu við tvöföldun vegar frá Reykjavík í Borgarnes og að framkvæmdum verði lokið á næstu átta árum.“

Það er öllum ljóst að það er brýnt að hefja framkvæmdir nú þegar við tvöföldun Þjóðvegar 1 á Kjalarnesi, þetta er verkefni sem þolir enga bið.  Fjöldi íbúa á Vesturlandi ferðast daglega á milli heimilis og höfuðborgarinnar til að sækja nám eða vinnu og að sami skapi er fjöldi íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem sækir vinnu á Grundartanga eða stundar nám við háskólana á Vesturlandi svo fátt eitt sé nefnt.  Á sama tíma vex ferðaþjónusta hröðum skrefum og tölur segja okkur að ríflega 700 þúsund ferðamenn heimsóttu Vesturland árið 2016.  Allt kallar þetta á framkvæmdir til að tryggja greiðar samgöngur og öryggi vegfaranda.

Ég skora því á þingmenn, ráðherra, borgaryfirvöld, Vegagerðina og aðra sem að ákvörðunartöku koma að tryggja nú þegar fjárveitingar til að hefja tvöföldun á Þjóðvegi 1 á Kjalarnesi, skipulagningu Sundabrautar auk þess að að hefja vinnu við undirbúning að veglínu og tvöföldun á veginum um Hvalfjarðarsveit og í Borgarnes.

 

Rakel Óskarsdóttir.

Höf. er bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Fleiri aðsendar greinar