Tveggja ára raunasaga

Ásgeir Sæmundsson

Af tilraunum mínum til að byggja sumarhús í Húsafellslandi. Fjallað um samskipti við Umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar

Fyrir nokkru var mér gefinn landskiki í Húsafelli hvar ég hugðist byggja mér sumarhús. Húsið var teiknað og ég sótti um byggingarleyfi 15. mars 2016 til þar til bærra yfirvalda í ráðhúsi Borgarbyggðar. Mér var tjáð að þetta myndi taka lítinn tíma sem ég fagnaði mjög því hugur stóð til að hefja framkvæmdir í sumarfríinu sama ár. Síðan hefur ekkert gerst, þrátt fyrir margar ítrekanir og ýmis loforð um bót og betrun af hálfu sveitarfélagsins. Í tilefni af tveggja ára baráttusögu ákvað ég að stinga niður penna.

 

Heyrnardeyfð og athafnaleysi

Kannski má segja að tónninn hafi verið lagður í upphafi, þegar ég sótti um byggingarleyfið, því engin staðfesting barst um móttöku þess. Í lok mars, þetta sama ár, náði ég sambandi við byggingarfulltrúa Borgarbyggðar sem fann umsóknina mína eftir töluverða leit og sá að henni hafði ekki verið svarað. Í samtalinu kom fram að öll gögn sem þyrfti með væru þarna í, einnig kom fram að ef ég skili inn teikningum á pappírsformi fyrir 1. apríl myndi erindið verða tekið fyrir á fundi þann dag. Teikningum var komið í ráðhúsið við opnun fyrsta dags aprílmánaðar en þá greinir starfsmaður frá því að byggingarfulltrúinn verði ekki við í dag. Það þótti mér næsta undarlegt miðað við samtal okkar tveimur dögum fyrr, en hugsaði með mér að eitt og annað gæti gerst þannig að ég hafði ekki stórar áhyggjur. Þegar ekkert heyrðist frá sveitarfélaginu fór ég aftur að ýta á svör og sendi byggingarfulltrúa tölvupóst 20. apríl, en fékk ekkert svar. Sá aðili sem teiknaði húsið sendi einnig tölvupóst í byrjun maí, en hafði sama árangur, ekkert svar. Loksins næst í byggingarfulltrúann síðari hluta maí. Þá eru allar forsendur breyttar. Nú þarf allt í einu að hafa fullbúið deiliskipulag og okkur jafnframt tjáð að ef það verði tilbúið í tíma, muni erindið verða tekið fyrir á fundi fyrsta júní. Drifið var í að klára það mál og gögn send inn. Ég fékk tölvupóst 2. júní þar sem byggingarfulltrúinn biður mig um að hringja í ákveðið farsímanúmer, sem ég og geri, án árangurs. Sjötta þessa mánaðar næst samband og byggingarfulltrúi tjáir mér að ekki hafi verið hægt að taka deiliskipulagið fyrir þar sem breyta þurfi aðalskipulagi Borgarbyggðar vegna málsins. Ég lýsti furðu minni á þessu og óskaði eftir skýringum sem litlar fengust en samþykkt var í sveitarstjórn fáum dögum síðar að breyta aðalskipulagi.

 

Öllum lokið

Í byrjun júlí árið 2016 er umsóknin tekin fyrir hjá umhverfis- og skipulagsnefnd og samþykkt að senda hana í grenndarkynningu þar sem ekkert deiliskipulag liggi fyrir um þetta svæði. Nú var mér öllum lokið. Deiliskipulag hefði verið sent inn löngu fyrr, eða í lok maí og átti ég bara erfitt með að skilja þessi vinnubrögð. Í lok mánaðar er mér tjáð að ekkert væri farið að gera í málinu, en yrði fljótlega. Sveitarfélagið auglýsir síðan deiliskipulag fyrir þrjú svæði síðla í ágúst, mín lóð var þar ekki á meðal. Það þótti mér einnig undarlegt og því haldið áfram að reyna að fá svör. Þau eru fá. Sviðsstjóri sendir þó svar bæði í ágúst og september til þess að segja mér að það séu engin svör. Síðla desember mánaðar 2016 sendi ég enn og aftur tölvupóst á sviðsstjóra sem enn hefur ekki svarað.

 

Byggðaráð svarar ekki spurningum

Nýtt ár var hafið, 2017 og heldur farið að síga í mig vegna þessarar fádæma afgreiðslu, eða réttara sagt, skorti á afgreiðslu. Ákvað ég því að senda enn annað bréfið, að þessu sinni til byggðarráðs Borgarbyggðar, þar sem óskað var eftir svörum. Fundur var haldinn í ráðinu 19. janúar. Erindið var tekið fyrir en bréfið ekki birt í fundargerð og spurningum mínum ekki svarað. Þó kom fram að byggðarráð harmaði þann drátt sem orðið hefði og leitað yrði leiða til þess að slíkt gerðist ekki aftur og að óháður aðili yrði fenginn til að fara yfir verkferla. Þennan sama dag fæ ég tölvupóst frá starfsmanni sveitarfélagsins þar sem sagði hvernig erindið mitt til byggðarráðs hafi verið afgreitt.

 

Reglum breytt eftir á

Í svari mínu spyr ég hvort búast megi við svörum við erindinu og af hverju bréfið hafi ekki verið birt. Skýringarnar eru þær að verið sé að vinna í málunum og bréfið hafi ekki verið birt af því að ég nafngreindi einstaklinga í stað þess að vitna með almennum hætti í embættisheiti. Ég sendi því aftur, sama erindið, til byggðarráðs þar sem ég var búinn að fella út alla nafngreinda einstaklinga og setja starfsheiti í staðinn ásamt því að ítreka fyrri spurningar. Erindið var tekið fyrir 16. febrúar 2017 og bókað sem trúnaðarmál þar sem efnið varði einstaka starfsmenn sveitarfélagsins. Í ljósi fyrri svara þótti mér þetta athyglisverð málsmeðferð. En sveitarstjóra og sviðsstjóra falið að svara mér. Í lok febrúar samþykkir byggðarráð síðan breyttar reglur um birtingu gagna með fundargerðum á vef sveitarfélagsins. Þar er kveðið á um að erindi sem lögð eru fyrir ráðið og varði einstaka starfsmenn og/eða þriðja aðila skuli ekki birt með fundargerðum. Þetta var merkileg samþykkt. Góður fundur var síðan með byggingarfulltrúa í byrjun mars þar sem hann benti á smávægilega breytingu í texta sem fínt væri að gera, sem og var gert og nýtt skipulag sent til hans sama dag. Um miðjan mars kom loks svar frá sveitarstjóra þar sem hann svaraði erindum frá febrúarfundi byggðarráðs. Ég var ekki sáttur við svörin, þau voru full af rangfærslum, svo ég sendi nýtt erindi á byggðarráð. Jafnframt sendi ég bréf á formann ráðsins sem svaraði mér og greindi frá því að deiliskipulagið virtist hafa glatast og ég þyrfti að senda inn nýtt. Þetta var í algjörri mótsögn við það sem byggingarfulltrúi hafði sagt á fundi með honum. Ég fór samt með nýjar teikningar af deiliskipulagi í apríl og mér var þá sagt að grenndarkynning verði í lok mánaðarins. Einnig sendi ég byggðarráði þriðja bréfið sem tekið var fyrir á fundi og samþykkt að mér verði svarað, sem enn hefur ekki verið gert. Í maí fer ég með annað teikningasett vegna hússins, sem ég hugðist byggja, því hinar virtust hafa týnst og nú lét ég kvitta fyrir móttöku á þeim.

 

Týnd og gleymd erindi

Seinni partinn í maí er umsóknin tekin fyrir á fundi hjá byggingarfulltrúa. Þar er vel tekið í erindið en þar sem ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag af svæðinu verði fyrirhuguð áform send í grenndarkynningu. Nú var ég endanlega orðlaus yfir þessari afgreiðslu allri. Ég hafði farið með deiliskipulagsplögg til sveitarfélagsins í maí 2016 og í því máli var ekkert farið að gera annað en að uppgötva að það væri týnt. Þá fór ég með nýja pappíra í apríl 2017 og samt er ekkert hægt að gera. Hin fádæma saga heldur áfram og í júní og júlí er ég sífellt að óska svara en öll fela í sér að eitthvað sé týnt, hafi gleymst eða sé ekki búið. Í september sendi ég fjórða bréfið til byggðarráðs sem tekur málið fyrir og mér eiga að berast svör. Það hefur ekki gerst nema að hluta. Þá óskaði ég eftir fundi með öllum þeim aðilum sem koma að skipulagsmálum í sveitarfélaginu og fór hann fram 11. október 2017. Lítið kom út úr þeim fundi nema að vinna við breytingu á aðalskipulagi væri ekki hafin, þótt samþykkt hafi verið í júlí 2016 að hefja hana. Einnig að ég myndi líklega ekkert geta byggt á þessu ári því svona vinna væri seinleg. Ég óskaði eftir því að fá afrit af mótmælum vegna grenndarkynningar á umsókn minni. Það fékk ég í lok nóvember, eftir að hafa póstað um málið á Facebook og spurt hvort fólki fyndist þessi vinnubrögð eðlileg.

Í dag er staðan sú að enn hef ég ekki fengið byggingarleyfi. Enn er verið að týna gögnum og segja mér ósatt og sem dæmi hefur sveitarfélagið týnt 9 teikningasettum á þessum tíma. Hús sem til stóð að reisa í júlí 2016 mun að líkindum ekki verða reist árið 2018. Fyrir utan allan þann tíma sem hefur farið í þetta fádæma ferli og þeim ótölulega fjölda tölvupósta sem ég hef sent en ekki hefur verið svarað, þá varð ég einnig af tekjum því til stóð að leigja út húsið upp í kostnað í nokkurn tíma. Nú er spurning hvort umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar taki við sér og klári málið, eftir að þessi fádæma saga hefur birst á prenti.

Á sama tíma og reynt hefur verið að afla leyfa og fá svör hafa ég og mínir nánustu staðið í baráttu við embættismenn og kjörna fulltrúa Borgarbyggðar í öðru máli, þar sem við erum að verja eigur okkar.

Það er efni í annan pistil sem birtast mun innan tíðar.

 

Ásgeir Sæmundsson.