Tryggt aðgengi að ákvarðanatöku

Eiríkur Þór Theodórsson

Íbúar eiga að hafa fullan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem þá varðar og vitneskju um hvernig og hvers vegna slíkar ákvarðanir hafa verið teknar.
Gögn og upplýsingar sem liggja til grundvallar ákvörðunum skulu ávallt vera aðgengilegar og upplýsandi með fjölbreyttum hætti nema lög krefjist leyndar.

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga er sveitarstjórn til að mynda skylt að upplýsa íbúa sína um áætlanir sem og einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið.

 

Hvernig tryggjum við öruggt upplýsingaflæði til íbúa?

Við teljum að með því að nýta rafræna stjórnsýslu getum við tryggt aðgengi að opinberum upplýsingum og þjónustu og aukið aðkomu almennings að stefnumörkun og ákvarðanatöku sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

Koma verður heimasíðu Borgarbyggðar í ásættanlegt horf, hún verði farsímavæn og einfölduð verulega. Einnig þarf að tryggja að öll opinber skjöl og fundargögn, sem ekki krefjast leyndar, verði birt á heimasíðu og gerð aðgengileg öllum til að tryggja upplýsta umræðu. Nauðsynlegt er að tengja málsnúmer og tilvísanir í rafrænum fundargerðum við rétta slóð á heimasíðu til að auðvelda íbúum leit að gögnum.

Borgarbyggð á að opna bókhald sitt betur með rafrænum hætti og sýna helstu bókhaldslykla með auðskiljanlegum hætti, t.d. gagnvirkt og myndrænt á heimasíðu.

Þar á að vera hægt að bera saman tekjur og gjöld síðustu ára og í framtíðinni á að vera hægt að skoða einstaka útgjaldaliði.

Þetta hafa t.d. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær gert með myndarbrag.

Við þurfum að hafa í huga að meðhöndlun og miðlun upplýsinga er lykilþáttur í stjórnsýslu og þjónustu við almenning. Þess vegna þurfum við að tryggja að ferlar við upplýsingagjöf í stjórnsýslunni séu gagnsæir og rekjanlegir. Allir eigi þess kost að fylgjast með ákvörðunum
og aðgerðum Borgarbyggðar.
Valdefling íbúa á að vera leiðarljós þeirra sem hið póltíska vald hafa.

 

Eiríkur Þór Theodórsson.

Höf. skipar 3. sæti VG í Borgarbyggð.