Tryggjum kjör Haraldar

Haraldur Þór Jóhannsson

Það er því miður ekki sjálfgefið að fólk gefi kost á sér til starfa í stjórnmálum. Þar ræður að sjálfsögðu nokkru það vantraust sem upp kom við fall bankakerfisins og afleiðingar þess. Mestu ræður þó sú orðræða sem þróast hefur með tilkomu netmiðla og vaxandi tillitsleysi fjölmiðla gagnvart stjórnmálamönnum.

Því er það nokkurt ánægjuefni að tíu manns skuli þrátt fyrir allt hafa gefið kost á sér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Það verður hlutverk hins almenna flokksmanns að stilla upp sigurstranglegum lista. Við brotthvarf Einars  Kristins Guðfinnssonar úr stjórnmálum var líka ljóst að velja þyrfti nýjan mann til þess að leiða listann.

Við síðustu alþingiskosningar hlaut flokkurinn tvo þingmenn kjörna og með Einari Kristni settist á þing Haraldur Benediktsson, sem þá hafði vakið verðskuldaða athygli sem forystumaður bænda á landsvísu. Það má segja að þeir hafi bætt hvorn annan upp, félagarnir Einar og Haraldur. Einar með seltuna í blóðinu með skagfirsku ívafi og Haraldur með sinn uppruna úr sveitinni í nágrenni þéttbýlisins og sjávarsíðunnar. Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgist með stjórnmálum að samstarf þeirra hefur alla tíð verið með ágætum enda sést árangur af störfum þeirri víða í kjördæminu.

Þrátt fyrir að Haraldur sé á sínu fyrsta kjörtímabili fólu samflokksmenn honum margvísleg vandasöm verkefni, hann enda sjóaður úr fyrri félagsstörfum sínum. Störf hans í atvinnuveganefnd og fjárveitinganefnd vega að sjálfsögðu þyngst enda má segja að þær nefndir vegi oft á tíðum þyngst ef horft er út frá hagsmunum landsbyggðarinnar. Þar vil ég sérstaklega nefna byggðaáætlun, rammaáæltun, breytingar á jarðalögum sem réttu hag bænda og gamalt mál Einars um húshitun.

Þá vil ég sérstaklega nefna störf Haraldar að fjarskiptamálum. Þar er um mikið framfaraskref að ræða þegar byggðir landsins eiga þess kost á allra næstu árum að komast í ljósleiðarasamband. Nokkuð sem fáir trúðu að gæti orðið. Þar hefur staðfesta og framsýni Haraldar að mínu mati ráðið mestu hversu vel hefur til tekist.

Með störfum sínum á þingi hefur Haraldi tekist að ávinna sér traust langt út fyrir raðir síns eigin flokks. Það eru slíkir hæfileikar sem gefast forystumönnum í stjórnmálum best í störfum sínum.

Að mínu mati liggur því í hlutarins eðli að honum verði falið að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Hann er þess trausts fyllilega verður.

Fleiri aðsendar greinar