Trúin flytur fjöll (og lax)

Axel Freyr Eiríksson

Veiðileiðsögumenn eru kynjaskepnur, fyrir sumum eru þeir einungis bílstjórar sem koma veiðimanninum sem er oftar en ekki í misjöfnu ástandi (það fer eftir því hvernig veiðin gengur), á milli staða. Þá er það stundum tilfellið að um samspil vínanda og blóðs sem ræður úrslitum hvernig veiðin gengur. Hjá sumum, því ber að halda til haga. Sumir breytast í veiðininjur þegar prómilhlutfallið eykst og moka fiski upp á meðan aðrir breytast í ítalsk ættaða spaghettígerðarmenn þegar ofskömmtun á sér stað, flugulínan verður að fallegu bolognese á vatnsyfirborðinu og hræðir allt kvikt sem fyrirfinnst í hylnum. En svo fyrir öðrum eru þeir vinir, sálusorgarar, áheyrendur, snillingar, heimspekingar, aðstoðarmenn, meðdrykkjendur. Ekki ólíkt því að vera bara eins og prestar í kirkju. Við leit í texta er þessi skilgreining á presti: „Prestur er sá aðili sem annast guðsþjónustur eða helgihald fyrir trúbræður sína. Prestar eru almennt álitnir vera í góðu sambandi við almættið og leitar fólk oft til presta til að fá ráðgjöf í andlegum málefnum sem og öðrum.“

Þetta sumar reyndi mjög á þessa tengingu veiðileiðsögumannsins og laxfisks í ám á Vesturlandi. Undirritaður starfaði við veiðileiðsögn í sumar og upplifði þetta ástand beint í æð. Í raun er það búið að taka mig rúma tvo mánuði að skrifa þennan pistil, ég geng ekki svo langt að skilgreina mig og fleiri með streituáfallaröskun, en þetta varð mjög hárugt á tímabili. Þegar áin var sem minnst í flæði vorum við leiðsögumennirnir eins og zebrahestar á þurrkatíma að leita að hyljum sem voru nægilega djúpir til þess að festa ekki örtúbuna í botninum. Ég fékk sting í hjartað þegar ég þurfti að fylla á Camelbak-inn minn þar sem ég stóð úti í ánni og hún rétt náði mér yfir ökkla, ég var með það sem ég kýs nú að kalla vatnsviskuvit.

Biblíusögurnar rifjuðust upp fyrir mér þegar ég stóð og hnýtti græna örtúbu á stærð við rykkorn á taum sem var þynnri en mannshár, ég var að leita að svörum. Ég hafði ekki áhuga á því að vera eins og Liverpool aðdáendur gærdagsins; „…þetta hlýtur að lagast“ heldur hlaut þetta að vera eitthvað meira, æðra. Þarna var verið að reyna á kjarna okkar tilvistar, trúna á hæfileika okkar sem leiðsögumenn. Var þetta sumar verk Satans? Er ég Job? Maðurinn sem Satan fékk leyfi hjá Guði að pína og kvelja, allt til þess að fá hann til að formæla guði sínum. Gat ég formælt laxinum fyrir að koma ekki í ána, gat ég formælt rigningunni fyrir að koma ekki? Þá kemur spurning á móti, formælirðu ljóninu fyrir að rífa gazellunna í sig eða hatarðu fjallið sem stíflaði ána með aurskriðu sinni? Náttúran gerir eins og hún vill og það er ekkert sem maður getur gert í því, þó maður sé í Simms fatnaði.

Þetta er farið að líta út eins og hugleiðing í messu. Kannski hefði ég átt að verða prestur?

 

Með kveðju

Axel Freyr Eiríksson, Ferjukoti.

Fleiri aðsendar greinar