Traustur vinur getur gert kraftaverk

Geir Konráð Theódórsson

Þetta eru skrítnir tímar og ég get ekki beint sagt að ég sé búinn að venjast því að loka mig af hérna í Niamey í Níger. Um helgina fór Sasha kærastan mín burt til að veita vinkonu sinni hérna í borginni félagsskap á afmælinu hennar, og ég var því einn heima í fyrsta skiptið í langan tíma. Þetta átti að vera karlakvöldið mitt, ég eldaði steik, opnaði flösku af rauðvíni og ætlaði að Zoom-spjalla við vini í gegnum internetið. En eins og svo oft gerist hérna í Níger þá var netið gjörsamlega vonlaust þetta kvöldið og engin spjallforrit virkuðu. Allt í góðu samt, ég bjóst við þessu og var með varaplan. Ég tengdi gamla flakkarann minn við tölvuna og byrjaði að horfa á Beverly Hills Cop bíómyndina sem ég hafði niðurhalað fyrir örugglega áratug síðan. Engar streymisveitur virka vel í vanþróaðasta landi í heimi og því er ég þakklátur fyrir gamla flakkarann. Besta stef kvikmyndasögunnar hljómaði um húsið sem og sérkennilega skemmtilegi hláturinn frá Eddie Murphy. Þetta var góð stund, en mér leið samt eitthvað furðulega og ég skildi ekki alveg af hverju.

Miðað við marga, sérstaklega hérna í Vestur-Afríku, þá er ég í góðri stöðu til að halda mig heima í útgöngu- og samkomubanni. Við búum í góðu húsi með garð innan við háa veggi, í frekar öruggu hverfi og við erum búin að birgja okkur vel upp af mat, vatni og öðrum nauðsynjum. Ég skildi ekki af hverju mér leið furðulega, mögulega voru það fréttirnar af óeirðum í jaðri borgarinnar og yfirlýsing frá hryðjuverkasamtökum í Malí að veikindin væru blessun frá Allah.

Ég stoppaði bíómyndina og fór út í garðinn. Ég fór að hugsa um öryggismálin. Veggurinn í kringum garðinn er með hvössum göddum á toppnum og fyrir einhverjum mánuðum síðan lagaði ég hliðið þannig að ég get núna læst því sérstaklega vel með tveimur slagbröndum úr stáli. Húsið sjálft er með rimlum fyrir öllum gluggum og það er hægt að loka og læsa öllum hurðum aukalega með stálhlerum. Ég horfði í kringum mig, húsið er frekar öruggt og hverfið líka, nágrannarnir mínir eru þýska sendiráðið og svo er höll forsetans ofar í götunni. Ég heyrði svo spjallið í öryggisvörðunum hinum meginn við hliðið þar sem þeir sitja við varðeld og fylgjast með götunni. Zarma songhai, hausa og mögulega önnur tungumál bergmáluðu í bland við hlátrasköll. Einhver var greinilega að segja góða sögu.

Þá skildi ég af hverju mér leið svona furðulega. Ég saknaði þess að vera í kringum fólk. Það var laugardagskvöld og ég vildi svo innilega bara sitja með fólki, spjalla og hlæja að góðri sögu. Mig langaði að fara út fyrir hliðið og setjast með vörðunum í kringum varðeldinn. Fyrir þessa skrítnu tíma hafði ég farið öðru hvoru og deilt mat og drykk með vörðunum ef ég og Sasha vorum með matarboð hinu meginn við hliðið. Þegar netið virkaði gat ég stundum gert mig skiljanlegan með þýðingarforriti í snjallsímanum, og það kom fyrir að ég gat á endanum skilið brot af góðri sögu og hlegið með þeim. En núna er samkomu- og útgöngubann og ég yrði að vera algjör fáviti til að brjóta þau. Ég vil auðvitað ekki smitast en ég vil sömuleiðis ekki vera rassskelltur og barinn með priki, sem er refsingin frá lögreglunni hérna í Níger fyrir þá aðila sem brjóta útgöngubannið eftir myrkur. Öryggisverðirnir eru með undanþágu frá þessu banni og þó ég væri ögn einmanna og leiður þá hélt ég mig auðvitað bak við hliðið og vegginn.

Því segi ég það, ef þú átt vin í raun. Fyrir þín hönd Guði sé laun. Svo hljómaði í laginu með Upplyftingu og ég játa að mér brá þegar einhver allt í einu sleikti mína hönd þarna í garðinum. Varðhundarnir okkar, Júlía og Rex, voru komin þarna til mín og settust hjá mér. Tíkin Júlía ef fyrrum götuhundur sem fyrri eigandi hússins hafði tekið að sér og notað sem varðhund í garðinum, Rex er svo sonur hennar sem var bara hvolpur þegar ég kom hingað fyrst. Þau standa sig sérstaklega vel við að verja húsið, sérstaklega frá risastóru rottunum sem koma upp úr opna holræsinu ofar í götunni á nóttunni og reyna að komast í gegnum garðinn að húsinu.

Fólk talar stundum mjög illa um götuhunda. Sumt af erlenda ríka fólkinu hérna í Niamey virðist hafa gaman af því að gera lítið úr innlendu hundgreyjunum, sérstaklega í samanburði við sína eigin hreinræktuðu hunda frá Evrópu og Ameríku. Þau dásama eitthvað rándýrt hreinræktað gerpi, og á meðan þau blaðra þá starir þetta kvikindi rangeygt og slefandi á mann úr handtöskunni þeirra. Fólk má alveg hafa sínar skoðanir, og mér þykja oftast næstum allir hundar dásamlegir á sinn hátt, en hundasnobb skil ég hins vegar ekki. Það eru fornar teikningar í hellum í Sahara eyðimörkinni af hundum á veiðum með mannfólki og rannsóknir sýna að afrísku götuhundarnir, eins og varðhundarnir mínir, eru með mikið og fjölbreytt genamengi sem bendir til þess að þeir séu afkomendur hunda sem eru búnir að vera hérna með mannfólkinu í Afríku í yfir 7000 ár. Ég hef lesið um afríska götuhunda sem eru notaðir sem varðhundar í þorpum til vernda fólk frá rándýrum eins og hýenum, og jafnvel ljónum. Ég efa að töskugerpi ríka fólksins myndi gera sama gagn.

Mér þykir vænt um varðhundana mína og eftir að hafa klappaði þeim um stund fór ég inn og náði í restina af steikinni minni og rauðvínsflöskuna. Ég kom aftur og settist svo með þessum bestu vinum mannsins á stéttinni í garðinum mínum. Ég talaði við hundana á íslensku og gaf þeim kjötbita. Það er oft léttir að bara tala upphátt á móðurmálinu þegar maður er búinn að vera lengi í burtu frá Íslandi. Ég sagði þeim að sama hvort þau væru að verja mig frá rottum og ljónum eða bara að veita mér félagsskap í samkomubanni, þá væru þau bæði mjög góðir hundar. Gamla tíkin Júlía stökk að lokum burt til að elta einhverja eðlu sem kom niður út mangótrénu og hún skildi okkur Rex eftir. Eftir því sem rauðvínið hvarf ofan í mig og kjötbitarnir ofan í Rex þá fannst mér við skilja hvorn annan betur, og mér fannst að lokum að við værum báðir farnir að syngja með laginu inn í nóttina:

 

Gott er að geta talað við

einhvern sem að skilur þig.

Traustur vinur getur gert –

kraftaverk.

 

Geir Konráð Theódórsson í Níger