Tölvan segir nei!

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Skipt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum er úrræði sem snýst um að við gerum okkur grein fyrir aðstöðumun foreldra og barna þegar foreldrar fara með sameiginlega forsjá barna sinna en búa ekki saman.

Í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í maí 2014 var innanríkisráðherra falið að skipa starfshóp til að fara yfir það hvernig jafna mætti þennan aðstöðumun foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barna sinna. Niðurstaða hópsins kemur ekki á óvart, misbrestur er á því að íslensk löggjöf styðji jafnt við báða foreldra og því þarf að breyta.

Skilyrði skiptrar búsetu barna eru, samkvæmt niðurstöðum starfshópsins, m.a. að víðtæk sátt ríki á milli foreldra um það sem barninu er fyrir bestu og samskiptin séu góð – úrræðið fellur annars um sjálft sig. Foreldrar þurfa að búa nálægt hvort öðru og barn sé í einum leikskóla og sæki einn grunnskóla. Úrræðið er því ekki opið öllum og mætti áætla að um fjórðungur foreldrar barna sem hafa skilið eða slitið sambúð myndu geta gengið inn í þetta fyrirkomulag.

 

Tölvan segi já!

Málið er hins vegar ekki einfalt, breyta þarf barnalögum, lögum um tekjuskatt, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúkratryggingar, lögheimilislögum og fleira. Af upptalningunni má sjá að þetta kallar á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir. Þá er grundvallarskilyrði að í tölvukerfi Þjóðskrár Íslands verði hægt að skrá upplýsingar um tengsl barna og foreldra, forsjá og skipta búsetu barns þannig að heimilisfang beggja foreldra komi þar fram og að hægt verði að miðla þessum upplýsingum rafrænt til opinbera aðila.

 

Jafnrétti í báðar áttir – tölvan segir nei!

Sameiginleg forsjá foreldra í kjölfar skilnaðar var lögleidd árið 1992 og í fyrstu voru í kringum 10% foreldra sem fóru þá leið. Upp úr aldamótum var um helmingur foreldra með sameiginlega forsjá. Í dag eru það um 90% foreldra en af þeim eru lögheimili barns í um 90% tilvika skráð hjá móður.

Þegar lögheimili barns er skráð er aðeins tiltekið nafn foreldris sem barnið býr hjá. Þetta þýðir, í ljósi þess að barn er nánast alltaf með lögheimili skráð hjá móður, að hvergi kemur fram í skráningu að barnið eigi líka föður. Það er fráleit staða og í raun niðurlægjandi fyrir feður. Vilji faðir skrá barn sitt, sem býr til skiptis hjá foreldrum sínum, í íþróttafélag í Reykjavík í gegnum rafræna vefsíðu kemur það alls ekki fram þar að faðirinn eigi viðkomandi barn. Þetta er lítið dæmi sem segir þó mikla sögu. Í stærra samhengi skiptir þetta máli varðandi barnabætur eða annan opinberan stuðning; slíkt fellur allt til þess foreldris sem hefur barnið hjá sér í lögheimili.

Skipt búseta barna er þannig skref í að færa kerfið nær þeim veruleika sem við nú búum við. Sá veruleiki, að foreldrar deili ábyrgð barna sinna eftir skilnað eða sambúðarslit í meira mæli en áður felur í sér mjög jákvæða þróun fyrir fjölskyldur og samfélagið í heild. Mörg börn búa á tveimur heimilum þar sem foreldrar ala börnin upp í sátt, sameiningu og deila allri ábyrgð. Kerfið þvælist fyrir og úr því þarf að bæta. Ég vona að við sjáum þetta úrræði verða að veruleika sem allra fyrst, til hagsbóta fyrir fjölmargar fjölskyldur.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Höf. skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar