Tökum upplýsta ákvörðun

Bryndís Geirsdóttir

Fyrir sex árum flutti ég „aftur heim“ í sveitarfélagið mitt. Enn heillast ég af kostum þess, fjölbreytileika og möguleikum. Borgarbyggð er víðfeðm, í því felast áskoranir fyrir stjórnsýsluna en líka mögnuð tækifæri. Ég bind miklar vonir við næsta kjörtímabil. Ég vona að hefjist góður uppbyggingarfasi jafnt á innviðum sem samfélagi. Ég vona að okkur beri gæfa til að horfa hvert á annað og á okkur sjálf og meta að verðleikum. Vinna saman og vinna hvert annað upp. Vinnum með kostina. Þetta á við jafnt um einstklingana sem búa í samfélaginu og alla hreppana og byggðakjarnana. – Við erum stórbrotin heild.

 

Bestu þakkir, frambjóðendur!

Þið sem bjóðið fram krafta ykkar til að vinna okkur samborgurum í hag. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi kost á sér í þetta ábyrgðarstarf, sem sannarlega getur verið mjög krefjandi og vanþakklátt. Það er feykilega dýrmætt að finnist fólk sem vill vinna í stjórnmálum. Vonandi ber okkur öllum gæfa til að ykkur gangi samstarfið vel og þið komið málefnunum í framkvæmd í góðri sátt við hvert annað og íbúa Borgarbyggðar. Ég hef trú á ykkur. Kæru íbúar Borgarbyggðar, framtíðin er í okkar höndum. Kynnum okkur frambjóðendur og stefnumál þeirra. Metum alla þá vinnu sem framboðin hafa lagt í þessar sveitarstjórnarkosningar. Tökum upplýsta ákvörðun. Mætum svo á kjörstað og kjósum.

 

Bryndís Geirsdóttir

Höf. er íbúi í Borgarbyggð

Fleiri aðsendar greinar