Tökum þátt – veljum sigurlið

Carl Jóhann Gräns

Það er hlutverk hins almenna Sjálfstæðismanns að setja saman sterkasta listann fyrir kjördæmið okkar. Hver er öflugasta uppsetningin? Hvernig hefur gengið og hver er framtíðarsýnin?

Ég hef notið þeirrar gæfu að fylgjast náið með störfum þingmanna Sjálfstæðisflokksins þeirra Haraldar Benediktssonar og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Þau hafa bæði unnið öflugt og kraftmikið starf í þágu okkar kjördæmis þannig að mikinn skugga hefur fallið á aðra þingmenn kjördæmisins.

Nú er staðan sú að þau gefa bæði kost á sér í oddvitasætið í kjördæminu svo okkur kjósendum í prófkjöri er vandi á höndum enda tveir frábærir þingmenn í þeim slag. Sjálfur hef ég tekið þá ákvörðun að styðja Harald Benediktsson í fyrsta sætið því að mínu mati tel ég árangursríkast að styðja Harald áfram sem oddvita.  Þannig nýtist hann kjördæminu best. Þórdísi styð ég áfram sem ráðherra þar sem áhersla hennar þarf alltaf að vera meira en bara okkar kjördæmi. Þannig nýtast kraftar þeirra beggja best.

Nú líður að kjördegi í prófkjöri okkar Sjálfstæðismanna sem fer fram 16. og 19. júní með kjörstöðum á flestum þéttbýlisstöðum. Hvern svo sem þú kýst þá er lykilatriðið að taka þátt. Síðan snúum við bökum saman og leggjum allt kapp á að tryggja inn þriðja þingmanninn okkar. Áfram X-D.

 

Carl Jóhann Gräns

Höfundur er formaður Sjálfstæðisfélags Akraness.

Fleiri aðsendar greinar