
Tökum höndum saman um að styrkja samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi
Björn Haraldur og Eggert
Á laugardaginn kemur verður gengið til kosninga um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Vinna við verkefnið hefur gengið vel á skömmum tíma, þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Samstarfið í nefndinni hefur verið gott, samskipti hreinskiptin og uppbyggileg, og hópurinn hefur verið lausnamiðaður í sinni nálgun. Samstarfsnefndin hefur ekki alltaf verið sammála en öll mál hafa verið til lykta leidd og góð samstaða er um helstu hagsmunamál svæðisins.
Nefndin lagði áherslu á að eiga samráð við íbúa og hélt samráðsfund á Breiðabliki, sem jafnframt var rafrænn. Þar var kallað eftir skýrari sýn á skólamál og var þá ákveðið að halda Skólaþing á sunnanverðu Snæfellsnesi til að heyra sjónarmið og hugmyndir skólasamfélagsins. Að lokum var haldinn rafrænn kynningarfundur á dögunum.
Niðurstaða vinnunnar og samráðs við íbúa er nokkuð skýr. Sameining mun að mati nefndarinnar skapa forsendur til að byggja upp öflugt skólastarf og styrkja samfélagið á sunnanverðu Snæfellsnesi. Sameinað sveitarfélag verður fjárhagslega sterkt og mun fjárfestingageta aukast með um 600 milljóna króna sameiningarframlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sú innspýting mun skapa tækifæri til fjárfestinga um allt hið sameinaða sveitarfélag. Í ljósi þess að nefndin telur kosti sameiningar sveitarfélaganna vera fleiri en ókosti, hvetur hún íbúa til að samþykkja tillöguna.
Verkefninu er hins vegar hvergi nærri lokið. Það þarf að halda áfram stefnumörkun í skólamálum og setja niður skýrar aðgerðir í bráð og lengd. Það verður verkefni nýrrar sveitarstjórnar, ef sameiningartillagan verður samþykkt. Hver svo sem niðurstaðan verður á laugardaginn, þá hafa tengsl íbúa og sveitarstjórnarfólks á svæðinu styrkst, við höfum greint mörg sóknarfæri og stefna í skólamálum er orðin skýrari.
Viljum við undirritaðir þakka nefndinni fyrir samstarfið, þeim sem unnu með nefndinni sem og okkar ráðgjöfum fyrir samstarfið.
Vonum við að þessi vinna skili sér og auðveldi íbúum þessa sveitarfélaga að taka ákvörðun.
Allar frekari upplýsingar eru á snaefellingar.is
Við hvetjum alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn, eða greiða atkvæði utan kjörfundar. Mikilvægt er að þátttaka verði góð og niðurstaðan skýr.
Við Snæfellingar stöndum sterkari saman.
Björn Haraldur Hilmarsson
forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar
Eggert Kjartansson
oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps.