Tími Ingjaldsfífla er löngu liðinn

Geir Konráð Theódórsson

Þann 10. október síðastliðinn var alþjóða geðheilbrigðisdagurinn, skiljanlega fór hann að mestu fram rafrænt á þessum Covid tímum, en því miður fór hann líka einhvern veginn alveg fram hjá mér. Ég var eitthvað upptekinn, en svo frétti ég af honum og hugsaði hve gott það er að það sé fólk þarna úti sem sé að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Efni dagsins er enn aðgengilegt á heimasíðunni 10okt.com. Ég er ögn á eftir þessum degi en ég vil samt sem áður leggja mitt af mörkum.

Eitt af því sem ég átti erfitt með að upplifa á meðan ég bjó í Níger í Vestur-Afríku var að sjá hvernig farið var með fólk sem átti við geðræn vandamál að stríða. Í landi þar sem líkamleg vandamál, svo sem sjúkdómar, hungur og misþyrmingar af höndum hryðjuverkamanna, voru auðsjáanleg og yfirþyrmandi í samfélaginu – þá voru hinu ósýnilegu vandamál geðveikra ekki mikið forgangsatriði. Ég man mest eftir einum ungum manni sem greinilega átti bágt. Hann var bundinn við staur í götunni við íþróttaleikvanginn. Hann orgaði og kipptist til og frá en flestir vegfarendur gengu framhjá án þess að líta á hann. Í fyrsta skiptið sem ég átti leið framhjá kom ég of nálægt honum og stökk hann þá upp og greip um handlegginn minn. Mér brá og stóð alveg stjarfur en hann orgaði bara og benti á skóna mína. Áður en ég gat gert eitthvað var annar eldri maður kominn út úr kofa með prik og barði manninn þar til hann skreið að staurnum sínum og byrjaði aftur að kippast til. Maðurinn með prikið sagði eitthvað á Zarma tungumálinu og yppti öxlum en ég reyndi að vera vinalegur og kinka kolli á meðan ég hrökklaðist frá. Þegar ég horfði til baka var eldri maðurinn með prikið að hugga unga manninn, hann hélt um hann af alúð og gaf honum eitthvað að drekka.

Þetta atvik sat í mér. Nógu erfitt er það fyrir almenning í þessu vanþróaðasta landi í heimi að bara eiga í sig og á, en ég get ómögulega ímyndað mér hvernig það er að eiga við geðræn vandamál ofan á allt annað. Núna þegar ég er kominn heim verður mér hugsað um hvernig þetta var hérna á Íslandi í gamla daga. Í Gísla sögu Súrsonar er þessi fræga lýsing: “Helgi hét sonur Ingjalds og var afglapi sem mestur mátti vera og fífl; honum var sú umbúð veitt að raufarsteinn var bundinn við hálsinn og beit hann gras úti sem fénaður og er kallaður Ingjaldsfífl.” Þegar ég ræði við fólk um geðheilbrigðismál hér á landi er oft sagt að ástandið sé betra núna en það var í fortíðinni. Það er auðvitað rétt og ástandið hérna á Íslandi er sömuleiðis betra en í Níger – en það þýðir hinsvegar alls ekki að ástandið hérna heima sé á einhvern hátt ásættanlegt!

Ég hef upplifað hinar ýmsu hliðar á geðheilbrigðiskerfinu okkar og því miður er þar víða pottur brotinn. Alltof oft lesum við eða heyrum um fáránlega langa biðlista, háan kostnað og að bráðveiku fólki í lífshættu sé vísað frá bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans. Þegar kvartað er svo yfir þessu vill enginn taka ábyrgð og allir keppast við að benda á annað fólk eða kerfið sjálft. Mér er nokkuð sama þegar opinberir starfsmenn benda á kerfið þegar vandinn er seinkun á vegaframkvæmdum eða framúrkeyrsla í rekstri einhverrar stofnunar – ég verð pirraður en mér er samt nokkuð sama.

Hinsvegar er mér alls ekki sama þegar líf og heilsa fólks er í hættu. Ungi maðurinn sem var bundinn við staurinn í Níger fór sér að minnsta kosti ekki að voða og hafði einhvern til að fylgjast með sér. En þegar fólk í sjálfsvígshugleiðingum á Íslandi fær ekki aðstoð og er vísað frá bráðamóttöku, já þá gæti kerfið allt eins bundið raufarstein við hálsinn á þeim og sagt þeim að éta gras.

Það má byrja á því að skoða af hverju starfsemi hins nýja og faglega geðheilbrigðisteymis hérna á Vesturlandi virðist hafa runnið út í sandinn. Þar á bæ virðist fólk ekki vera að vinna vinnuna sína af heilindum. Ekki er staðið við ítrekuð loforð um eftirfylgni og stuðning við brothætta einstaklinga. Hinn klassíski bendingaleikur um ábyrgð er þar í gangi og borið er við fjárskorti og fólki vísað frá. Það er mikið um ósvöruð erindi og því miður fæ ég á tilfinninguna að ákveðnir aðilar vinni þessi opinberu hlutastörf sín með litlum krafti til þess eins að mjólka kerfið um peninga í eigin vasa. Hinsvegar er hin vinnan þeirra á einkastofunni alltaf í fyrsta sæti. Því miður virðist það alltaf vera svarið í geðheilbrigðismálum – pantaðu tíma á einkastofu og vonaðu að þú hafir efni á því.

Ég skora á opinbera aðila að hætta þessum bendingaleik um hver beri ábyrgð og ég skora á sitjandi heilbrigðisráðherra að rífa sig upp á rasshárunum og laga þetta kerfi. Það er óásættanlegt að ef þessir vel launuðu opinberu aðilar og vinir þeirra lenda í geðrænum vanda geti þeir bara hoppað í tíma á rándýrri einkastofu, en að það bíði fjársvelt og ómögulegt opinbert kerfi fyrir okkur hin.

Ég legg til að fólk á Alþingi og opinberir starfsmenn megi bara nota opinbera geðheilbrigðisþjónustu. Sjáum hve fljótt kerfið lagast ef þau þurfa að bíða í þrjú ár eftir ADHD greiningu, reyni að fá skýr svör frá áhugalausu geðheilbrigðisteymi eða upplifa þá stund að verða hent frá bráðageðdeild Landspítalans þegar mest á reynir.

 

Lifið heil.

Geir Konráð Theódórsson