Tímar fjarveru og nærveru

Geir Konráð Theódórsson

Eftir vinnudaginn komum við okkur saman, við töldum allan hópinn til að vera viss. Gott, allir mættir, það mátti engan tíma missa. Við brunuðum á jeppunum í halarófu í gegnum borgina, framhjá götumörkuðunum og úlföldunum. Í úthverfinu stoppuðum við þar sem reipi voru dregin yfir veginn til að borga vegatoll og svo að lokum sáum við klettana og við beygðum af veginum og ókum út á sandinn. Við horfðum á himininn og sáum að við vorum ekki of sein. Við komum okkur fyrir á teppum, grófum holu, kveiktum eld og grilluðum kjöt á teini. Við náðum þessu! Við horfðum öll saman áhyggjulaus með kalda drykki í hönd á rauðglóandi sólina renna saman við sandinn og sjóndeildarhringinn í eyðimörkinni.

Þessi góða stund var fyrir nokkrum vikum síðan. Svona vildi Joel vinur minn eyða síðasta deginum sínum í Níger. Hann var þá að flytja burt til að vinna á sjúkrahúsi fyrir börn í Eþíópíu. Þetta var yndislegt kvöld og okkur þótti þetta alveg sjálfsagt, að bara safna saman fólki, halda veislu og faðma og kveðja kæran vin sem var að flytja í burtu. Okkur þótti líka alveg sjálfsögð tilfinning að þessi vinur okkar væri síðan tæknilega ekkert svo langt í burtu. Við getum alltaf sent skilaboð, hringt og jafnvel spilað saman í gegnum netið. Svo er Eþíópía ekkert það langt frá Níger, við vorum öll að lofa að hoppa með næstu flugvél í heimsókn til hans næst þegar við kæmumst í frí.

Ég, og kannski mörg okkar, var alveg búin að gleyma því hve aðskilinn heimurinn var fyrir ekki svo mörgum áratugum síðan. Ef fólk flutti burt í annað land, að ég tali nú ekki um einhversstaðar í Afríku, þá var mjög erfitt að hafa samskipti, hvað þá viðhalda vináttu. Það var rándýrt að hringja til fólks í öðrum löndum og það tók langan tíma fyrir bréf og pakka að berast með pósti. Í þá daga þegar maður kvaddi vin sem var að flytja burt í annað land þá var maður með það í huga að það væru mánuðir, eða kannski einhver ár, þar til að við myndum hittast aftur, og jafnvel aldrei aftur.

Ég hugsa núna hve lánsöm við erum í dag þrátt fyrir þessa skrítnu tíma með tilheyrandi einangrun. Þó að það sé ólíklegt að við getum hoppað upp í flugvélar á næstunni til að heimsækja vini okkar í öðrum löndum, þá erum við samt svo heppin að geta haft samskipti við þá í gegnum netið sama hvar vinirnir búa á hnettinum. Meira að segja hérna í Níger, sem er því miður svo vanþróað að póstsendingar virka oftast ekki, þá hef ég aðgang að netinu og get séð myndir frá Íslandi af tíu vikna gamla frænda mínum brosa með lítinn spékopp. Ég get hringt í fjölskylduna mína, sent skilaboð til kæra Joel í Eþíópíú og ég get deilt pistlum með þér kæri lesandi.

Kannski er þetta góður tími til að vera þakklátur fyrir allar þessar nútíma samskiptaleiðir? Kannski er þetta góður tími til að hafa samband við fólkið sem þú hefur ekki heyrt í lengi? Fagfólk og yfirvöld boða skiljanlega og nauðsynlega fjarveru frá fólki á þessum tímum, en þó við einangrun okkur þá getum við samt notað tímann og tæknina til að hlusta á og tala við vini og ættingja nær og fjær. Við getum notað þessa tíma fyrir nærveru með þeim sem okkur þykir vænst um.

 

Geir Konráð Theódórsson í Níger.