Tímabær endurbót á Vesturlandsvegi

Haraldur Benediktsson

Samgönguáætlun sem Alþingi er nú að samþykkja innifelur mikil tíðindi fyrir íbúa á Akranesi og reyndar á Vesturlandi öllu. Innanríkisráðherra lagði þar til að ráðist yrði í breikkun vegarins um Kjalarnes. Slík samgöngubót er löngu tímabær og mun gjörbreyta því ástandi sem þar hefur skapast í umferðarmálum.  Endurbætur þar mega ekki seinni vera, bæði vegna umferðarþunga og öryggis vegfarenda á þeirri leið.

Það var mikilvægt að innaríkisráðherra gerði úrbætur á Vesturlandsvegi að forgangsmáli.  Lengi hefur verið barist fyrir þeim endurbótum. Það mun bæta verulega búsetugæði og möguleika fólks að greiða samgöngur með þessum hætti.  Akranes, Borgarnes og Borgarfjörður eru raunhæfir valkostir í búsetu þeirra sem vilja stunda vinnu og nám á höfuðborgarsvæðinu.  Enda sýnir íbúaþróun að svo er. Vaxandi eftirspurn er eftir húsnæði og þróun á húsnæðismarkaði er með þeim hætti að slíkur valkostur, búseta hér er eftirsóknarverð.

Það er hinsvegar slæmt að hvorki gengur né rekur með Sundabraut. Þar halda borgaryfirvöld málinu í heljargreipum. Sú framkvæmd er ekki síður mikilvæg og okkur nauðsynleg og barátta fyrir því heldur áfram.

Fyrir íbúa Akraness og nærsveita, og raunar Norðvesturkjördæmis alls, er ástæða til að fagna þessum áfanga.

 

Ný hugsun

Við vinnslu á fjárlagafrumvarp fyrir 2016 var mikil umræða af hálfu sveitarfélaga um malarvegi. Vegi sem íbúar sveitanna þurfa að búa við, þar sem börn fara um á hverjum degi til og frá skóla. Að frumkvæði Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, beitti meirihluti fjárlaganefndar sér fyrir að Vegagerðin fengi fjárveitingu til að framkvæma tilraun, sem gæti orðið til að einfalda verulega endurbætur á vegum. Ekki er hægt að segja að tilraunin hafi verið frumleg, en hún gengur út á að með lágmarks endurbótum megi leggja bundið slitlag án mikils kostnaðar. Við þekkjum mörg slíka vegi og höfum keyrt á slíkum vegum í öðrum löndum.  Þeir eru kannski mjóir og hlykkjóttir.

Í sumar voru slíkir kaflar lagðir og reynslan er áhugaverð. Reynslan sýnir að kostnaður við hvern endurbættan kílómetra er um 10 milljónir króna.  Í stað þess að hefðbundinn kostnaður, þá reyndar við fullbúinn framtíðarveg, er um 60 -70 milljónir á hvern km.  Um slíka lausn verður að vera sátt milli íbúa og sveitarfélaga. En hér má því skoða lausn sem getur gjörbreytt samgöngum í dreifðum byggðum.  Ég legg áherslu á að slíkar framkvæmdir verði þróaðar áfram.  Við þurfum á þvi að halda.

 

Haraldur Benediktsson

Höf. er alþingismaður og skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Fleiri aðsendar greinar