Tillögum Dögunar vel tekið

Sigurjón Þórðarson

Tillögum Dögunar um einfaldar breytingar á stjórn fiskveiða til verðmætasköpunar, sem ég setti fram í greinarkorni á bb.is og Skessuhorni, hefur verið afar vel tekið.

Sjómenn sjá í hendi sér að tillögurnar um að fiskur fari á markað, fela í sér umtalsverðar kjarabætur. Nokkrir hafa spurt um hvernig Dögun ætli að koma á frjálsum krókaveiðum og hafa viljað fá nánari útfærlsu á tillögunum.

 

Fyrsta skrefið verður að auka frelsið á strandveiðunum með því að bæta við einum mánuði inn í kerfið sem hægt er að velja um að komi  að hluta eða öllu leyti, fyrir framan eða aftan núverandi tímabil.  Í öðru lagi verður gefinn aukinn slaki í kerfið, með því að leggja af núverandi potta á hverju svæði.  Í stað þess þá verður öllum trillunum leyft að róa í 12 veiðiferðir, í hverjum mánuði.  Þessi breyting mun án nokkurs efa; auka öryggi sjómanna, bæta afkomu og gera veiðarnar manneskjulegri.  Breytingin felur í sér tekinn verður í burt hvatinn til þess að fara á sjó í tvísýnum veðrum, þegar útlit er fyrir að pottur á ákveðnum veiðisvæðum er við það að klárast. Sjómenn munu kappkosta við að velja góðviðrisdaga til sjósóknar.

 

Nokkurs misskilnings gætir enn hjá formanni Sjálfstæðisflokksins um eðli fiskveiða og þá sérstaklega strandveiða. Í nýlegu viðtali, þá mátti skilja á honum að hann teldi, að ef strandveiðum væri hætt á flóum og fjörðum, þá myndi sami fiskur verða veiddur af nokkrum skuttogurum  með miklu minni tilkostnaði.

Reynsla sjómanna og rannsóknir sýna að þorskur á uppvaxtarskeiði er staðbundinn og það á einnig við um fleiri fiskistofna.  Fiskur sem merktur er á einum stað er miklu líklegri til að veiðast á ný nálægt þeim stað sem hann merktur á, en á fjarlægari fiskimiðum. Þar sem fiskur er staðbundin, þá þarf að dreifa fiskveiðum til þess að nýta auðlindina af skynsemi.

 

Kartöflur eru einnig staðbundnar og þess vegna dettur fáum í hug að taka aðeins upp úr einu horni  kartöflugarðsins –  sama á við um fiskveiðiar, ef árangur á að nást, þá þarf að nýta öll fiskimið. Vonandi fara Sjálfstæðismenn að átta sig á umræddum staðreyndum um kartöflur og fisk svo þeir geti lagt okkur í Dögun lið, við að auka frelsið, í stað þess að leggja stein í götu frjálsra krókaveiða.

 

Aukið frelsi til krókaveiða er algerlega í samræmi við fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða, þar sem atvinnufrelsið eykur hagkvæma nýtingu fiskistofna og tryggir traust atvinnu og byggð í landinu.

 

Sigurjón Þórðarson

Í fyrsta sæti á lista Dögunar í Norðvestur kjördæminu

Fleiri aðsendar greinar