Til skipulagsyfirvalda á Akranesi vegna Dalbrautar- og Sementsreitsins

Jens og Ragnheiður Þóra

Við undirrituð, íbúar á Dalbraut 21, viljum beina þeim tilmælum til skipulagsyfirvalda að við skipulag á Dalbrautarreitnum, og raunar einnig á Sementsreitnum, verði fegurð og vellíðan íbúa í framtíðinni höfð í fyrirrúmi.

Okkur sýnast húsin Dalbrautarmegin eiga að vera ofan í götunni eins og nú er mikil tíska meðal skipulagssérfræðinga. Mun betra er að hafa húsin fjær götunni eins og skipulagið gerir ráð fyrir Þjóðbrautarmegin. Þá sýnist okkur gert ráð fyrir heldur háum húsum ofan í íbúðarhúsunum sem fyrir eru.

Varðandi Sementsreitinn þá minnum við á athugasemdir sem komu fram á fundinum um að endurheimta skuli Langasand á því svæði þar sem Sementsverksmiðjan var reist. Þær hugmyndir eru í það minnsta verðar skoðunar. Langisandur er ein helsta perla Akraness sem okkur ber að varðveita. Skipulag bæja er sérstaklega erfitt nú á tímum þegar nóg er af peningum í eigu fjármálaafla sem einungis hugsa um skammsýn gróðasjónarmið. Þessi sjónarmið virðast víðast hvar ráða nánast öllu í skipulagsmálum með áherslu sinni á þéttingu byggðar og litlu skeytt um fegurð umhverfisins og vellíðan íbúanna. Hindrum að framtíðin verði slík með því að hafa fegurð og vellíðan íbúa framtíðarinnar í fyrirrúmi og ofar skammsýnum gróðasjónarmiðum fjármálaafla sem geta valdið óbætanlegu tjóni á samfélaginu þegar til lengri tíma er litið.

 

Akranesi, 20. febrúar 2017

Virðingarfyllst,

Jens Benedikt Baldursson og Ragnheiður Þóra Grímsdóttir, Dalbraut 21, Akranesi

Fleiri aðsendar greinar