
Til hamingju Stykkishólmur með góðan samning
Eggert Kjartansson
Full ástæða er til að óska bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar til hamingju með þessa samninga um skólaþjónustu, sem undirritaðir voru fyrir um mánuði síðan, enda mjög hagstæðir fyrir þeirra samfélag.
Þetta er í raun ekki þjónustusamningar heldur samningar um samrekstur á grunn,- leik- og tónlistaskóla milli þessara samfélaga. Eyja- og Miklaholtshreppur greiðir miðað við hvað reksturinn á pr/barni kostar inn í Hólmi án þess að hafa nokkuð um það að segja með hvaða hætti rekstrinum er háttað. Það er því útilokað fyrir hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps að segja á þessari stundu hvort þetta verði hagkvæmari leið í fræðslumálum en var 2022 hér í sveit. Sennilega verður þó eini möguleikinn á sparnaði að mun minn þjónusta verði við börnin eða einfaldlega að færri börn verði í samfélaginu. Eina sem fast er í hendi er að Stykkishólmur fær 1,5 milljón vísitölutengt á ári fyrir að senda áætlanirnar og reikninga yfir fjallgarðinn sem og aðra umsjón óháð fjölda barna.
Mikilvægt er auðvitað fyrir okkar kæru nágranna að fá slíkan samning með 80 milljóna tap á síðasta ári þrátt fyrir að fá góða upphæð úr Jöfnunarsjóði vegna sameiningar við Helgafellssveit. Ef þeir peningar hefðu ekki komið myndi ég áætla að tapið hefði orðið í Stykkishólmi yfir 150 milljónir fyrir síðasta ár. Á sama tíma eru nágrannasveitarfélög að skila mjög góðum rekstri og jafnvel með miklum hagnaði eins og Borgarbyggð og Snæfellsbær. Við slíkar aðstæður er auðvitað gott að hafa góða granna sem opna beina línu af bæjarskrifstofu Stykkishólms á bankareikning Eyja- og Miklaholtshrepps. Hvers eigum við íbúar Eyja- og Miklaholtshrepps að gjalda sem viljum hafa hlutina frekar heima fyrir eins og við höfum verið að leggja áherslu á í vetur?
Eggert Kjartansson