Þrjú atriði

Kristinn Hallur Sveinsson

Öryrkjabandalag Íslands hefur undanfarnar vikur staðið fyrir fundaherferð í mörgum stærri sveitarfélögum landsins þar sem farið er yfir rétt fatlaðs fólks í sveitarfélögum.  Á fundinn eru boðaðir frambjóðendur þeirra lista sem bjóða fram á hverjum stað og þeim boðið að fara yfir áherslur sínar. Slíkur fundur var haldinn hér á Akranesi 7. maí síðastliðinn og var ágætlega heppnaður. Þar kom fram að þó margt sé ágætt í þjónustu við fatlaða og öryrkja á Akranesi megi bæta heilmargt. Það eru engar fréttir að upp á vanti í þjónustu við fatlaða á Akranesi, líklegast er það þannig i flestum sveitarfélögum.

 

NPA

Nú í vor samþykkti Alþingi lög um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, eftir áralanga baráttu. Þessi lagasetning færir NPA úr því að vera jaðarkostur í þjónustu við örfáa fatlaða yfir í að vera valkostur fyrir flesta. Gallinn við lagasetninguna er að fjöldi samninga er í upphafi takmarkaður við 80, þó þeim fjölgi þegar á líður. Mörg sveitarfélög hafa þegar sett sér reglur varðandi NPA. Það hefur Akranes ekki gert, þrátt fyrir góðan fyrirvara og enginn með fötlun á Akranesi hefur NPA samning nú. Akraneskaupstaður verður að standa sig betur, setja reglur um NPA og bjóða þessa þjónustu sem raunhæfan valkost fyrir fatlaða íbúa sveitarfélagsins. Það viljum við í Samfylkingunni gera.

 

Skammtímavistun

Á Akranesi er engin skammtímavistun fyrir fötluð börn. Það eru orðin nokkur ár síðan foreldrum fatlaðra barna var boðið upp á skammtímavistun í Holti í Borgarfirði. Það hentaði mörgum, en alls ekki öllum, t.d. þeim sem þurfa fötlunar sinnar vegna að vera nálægt spítala. Hér á Akranesi höfum við frábært sjúkrahús og nálægð við það myndi veita bæði fötluðum börnum og foreldrum þeirra öryggi og sálarró ef okkur tækist að koma á fót skammtímavistun á Akranesi. Samfylkingin á Akranesi vill stefna þangað.

 

Ferðaþjónusta fatlaðra

Lögum samkvæmt eiga sveitarfélög að veita fötluðu fólki ferðaþjónustu. Reglur Akraneskaupstaðar eru frá 2012 og þarfnast sárlega endurskoðunar. Samkvæmt þeim er ferðaþjónusta aðeins í boði milli klukkan 7:30 og 17:00 á virkum dögum. Þarna er pottur brotinn, það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk sem þarf á ferðaþjónusta að halda sé einungis á ferðinni á vinnutíma. Allir eiga rétt á að taka þátt í lífinu, hvort sem það er kvölds, morgna eða um miðjan daginn og hvort sem það er á virkum degi eða um helgi. Þessu viljum við í Samfylkingunni breyta.

Hér hafa aðeins verið talin uppi þessi þrjú atriði. Hér er ekki minnst á ástand gangstétta og stíga sem víða eru ófærir hreyfihömluðum, hér er ekki talað um hvernig útivistarperlurnar okkar, Langisandur og skógræktin í Garðalundi, eru enn utan seilingar fyrir hreyfihamlaða. Hér er ekki heldur talað um hvernig sundlaugin okkar á Jaðarsbökkum er enn ekki aðgengileg hreyfihömluðum á meðan tugmilljónum er varið í tveggja hæða heitan pott við Langasand, sem sennilega verður ekki heldur aðgengilegur hreyfihömluðu fólki.

 

Kristinn Hallur Sveinsson

Höfundur skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.