Þjónustuskerðing í boði meirihlutans

Davíð Sigurðsson

Sveitarfélagið Borgarbyggð er víðfeðmt, fjölkjarna sveitarfélag þar sem þarf að sameina sjónarmið margra ólíkra hópa þegar kemur að þjónustu við íbúa. Erfitt getur verið að viðhalda sama þjónustustigi fyrir alla íbúa en engu að síður er það lágmarks krafa að veita lágmarksþjónustu þegar kemur að samgöngum og fjarskiptum fyrir alla íbúa. Á því hefur verið brotalöm í okkar annars ágæta samfélagi. Slík staða er til þess fallin að reyna að vinna í henni til þess að jafna stöðu íbúa en ekki auka enn á mismun milli þeirra. Það hefur hins vegar meirihlutanum í Borgarbyggð tekist með nýframlögðum snjómokstursreglum fyrir dreifbýli Borgarbyggðar.

Í kulda og trekki

Segja má að íbúar sveitanna sitji eftir í kulda og trekki þegar kemur að hinum nýju reglum. Enn og aftur skal dregið úr þjónustu við íbúa dreifbýlisins. Í hinum nýju reglum meirihlutans á að fækka föstum snjómokstursferðum heim á sveitabæi. Reglan hefur verið sú að mokað hefur verið heim á bæi þar sem hafa verið skólabörn, þar sem pósturinn hefur þurft að fara og að endingu hefur verið mokað fyrir mjólkurbíla heim á bæi þar sem stunduð er mjólkurframleiðsla. Nú ber svo við að í hinum nýju reglum á að hætta á að moka heim á bæi þar sem mjólkurbíll þarf að sækja mjólk til bænda. Bænda sem standa fyrir öflugum fyrirtækjarekstri á búum sínum og skapa verðmæti fyrir íbúa landsins. Ekki var látið þar við sitja, heldur ákvað hinn ágæti meirihluti að ganga enn lengra og hætta líka snjómokstri vegna póstferða. Það er sem sagt ekki nóg að íbúar sveitanna hafi þurft að taka á sig þjónustuskerðingu undanfarin ár vegna fækkunar póstferða, heldur ætlar nú meirihutinn að reyna að koma í veg fyrir að fólkið í sveitunum fái póst yfirhöfuð þegar vetur konungur sýnir sýnar sterkustu hliðar.

Innihaldslaus fagurgali

Fyrir kosningar voru þeir flokkar sem mynda meirihlutann duglegir að lofa bót og betrun þegar kom að búsetujafnrétti til handa íbúum sveitanna. Sá fagurgali virðist hafa haldið rétt fram yfir kjördag, síðan var sagan öll. Við í Framsókn munum ekki samþykkja þær tillögur sem liggja fyrir sveitarstjórn varðandi snjómokstur. Það er grundvallaratriði fyrir íbúa sveitanna að geta gengið að því vísu að fá póst þrátt fyrir válind veður og það er ekki boðlegt fyrir þá sem stunda atvinnurekstur til sveita að geta ekki komið afurðum sínum á markað sama hvernig viðrar.

Mokum betur í Borgarbyggð.

 

Kveðja, Davíð Sigurðsson.

Höf. skipar annað sæti lista Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar