
Þjónusta á staðnum – því hún skiptir máli
Halla Gunnarsdóttir
Þegar færð eru rök fyrir umfangsmiklum samgönguframkvæmdum á borð við jarðgöng er oft bent á mikilvægi þess að stækka atvinnusvæði smærri samfélaga. Þannig geti fólk farið um skemmri veg til að sækja fjölbreyttari störf en alla jafnan fyrirfinnast í smærri sveitarfélögum úr alfaraleið. Á hinn bóginn getur sú hætta skapast að þjónusta færist frá heimabyggð og fólk þurfi að fara um lengri veg til að komast í apótek, banka eða sækja opinbera þjónustu, svo dæmi séu tekin.
Þegar Verslunarmannafélag Akraness tók ákvörðun um að sameinast VR, sem þá var sérstaklega kennt við Reykjavík, var það frumskilyrði að áfram yrði rekin skrifstofa á Akranesi. Það gekk sannarlega eftir og gott betur en það, enda fjölgaði stöðugildum VR í bæjarfélaginu þar sem hægt var að sinna ýmissi annarri þjónustu félagsins óháð staðsetningu. Starfsfólk VR nýtur góðs af þessu í dag og getur starfað á skrifstofunni á Akranesi eftir hentugleika, enda eru sum þeirra sem vinna að staðaldri í Reykjavík búsett á Akranesi.
Líka eitt búsetusvæði
Það vill nefnilega oft gleymast að með jarðgangagerð verður ekki aðeins til eitt atvinnusvæði, heldur líka eitt búsetusvæði. Þannig eru það ekki eingöngu íbúar Akraness sem geta sótt vinnu á höfuðborgarsvæðið fyrir tilstilli Hvalfjarðarganganna, heldur getur vinnandi fólk í Reykjavík og nærsveitum valið að setjast að á Akranesi, sem fjölmörg dæmi eru um.
Því miður hafa ekki öll fyrirtæki áttað sig á þeim tækifærum sem í þessu felast, hvort sem lýtur að því að auka mannauðinn eða viðskiptin. Til eru ótalmörg dæmi um fundi sem haldnir eru í höfuðstöðvum stærri fyrirtækja þar sem excel-skjölum er varpað upp á skjá og niðurstaða útreikninganna sú að vel megi loka útibúum eða smærri rekstrareiningum á landsbyggðinni; fólk geti farið á netið eða notað bæjarferðina. Stundum er þetta rétt, en oft er hins vegar um mikla skammsýni að ræða. Það segir til dæmis sína sögu að VÍS sem lokaði útibúi sínu á Akranesi árið 2018 kynnti nú í apríl með stolti að fyrirtækið hyggist reka fulla þjónustu á Skaganum að nýju og ná þannig betur til Vesturlands í heild sinni. Slík ákvörðun er ekki tekin af hugsjóninni einni saman, því auðvitað er búið að fara betur yfir excel-skjalið og reikna út að líklega varð félagið af miklum viðskiptum með þessari ákvörðun árið 2018.
Sum þjónusta á að vera í nærumhverfinu
Mér segir svo hugur að sú þróun að þjónusta sé færð burt frá fólki eigi eftir að ganga til baka á fjölmörgum stöðum. Auðvitað gerir hún það ekki að öllu leyti og í þessu felst engin þrá eftir því að allt verði eins og það einu sinni var. En hins vegar er staðreyndin sú að sum þjónusta á heima í nærumhverfinu og bæði hið opinbera og fyrirtæki þurfa að átta sig á því.
Þótt ekki sé stanslaus traffík inn á hina öflugu skrifstofu VR á Akranesi alla daga, þá er félagsfólki engu að síður mikilvægt að þjónustan sé á staðnum. Enn fremur er það gott fyrir starfsemina, þar sem starfsfólk lifir og hrærist í nærsamfélaginu og hefur þá skilning og þekkingu á þeim staðbundnu áskorunum og tækifærum sem þar leynast.
Í grein minni í Skessuhorni þann 5. mars sl. greindi ég frá því að hlyti ég kjör sem formaður VR myndi ég hafa reglubundna viðveru á skrifstofum VR um landið, bjóða félagsfólki til samtals og heimsækja vinnustaði. Mér þótti sérlega skemmtilegt að hefja leika á Akranesi í síðustu viku og ég þakka góðar móttökur í Krónunni, Bónus og Verslun Einars Ólafssonar. Einnig þakka ég þeim sem litu við í kaffi og með því á skrifstofunni, sem jafnframt urðu mér innblástur við skrif þessarar greinar! Ég hvet félagsfólk VR á Akranesi til að sækja skrifstofuna heim, hvort sem er með erindi eða erindisleysu.
Það verður tekið vel á móti ykkur!
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR