Þjóðarmeinið kvótakerfi í sjávarútvegi

Stefán Skafti Steinólfsson

„Dauðdóm sinn kvað hann upp og glotti/ Þorpsbúa hann hafði að háði og spotti.“ Þannig segir í ágætum texta um örlög fiskvinnslufólks. Nú er stefnan að leggja fiskvinnslu í rúst á Akranesi í annað sinn. Bætist Skipaskagi á langan lista byggðarlaga þar sem er sviðin jörð eftir kvótakerfið. Hringinn í kringum landið búa menn við nagandi óvissu um að kvótinn hverfi í þorpunum, eða bíða eftir ölmusu í nafni byggðakvóta. Með lögum um stjórn fiskveiða hafa mörg byggðalög farið mjög illa ef ekki verið lögð í eyði.

Meðfylgjandi tafla gefur mynd af því hvernig staðan var fljótlega eftir að kvótakerfið var sett á. Gott er að sjá hver hlutur Vesturlands og Vestfjarða er myndarlegur áður en Hafró týndi 354 þúsund tonnum af þorski. Breytingin til dagsins í dag er svakaleg. Það er hverjum landsbyggðarþingmanni til skammar að hafa varið kvótakerfið og þá skortveiði sem það boðar. Gleymum því ekki að fyrir daga kvótakerfisins veiddum við u.þ.b 400 þúsund tonn áratugum saman. Það er smjörklípa að segja að illa hafi verið farið með afla áður fyrr. Sambærilegt magn í dag myndi fá góða meðferð og virðisauka. Kvótinn var settur á til að „vernda“ stofnana var sagt. Dæmi nú hver fyrir sig. Veiðin er u.þ.b. 240 þúsund tonn. En hafið er fullt af fiski og fólki bannað að bjarga sér. T.d. er einn bátur frá Akranesi á þorksnetum þegar flóinn er fullur af fiski. Svo segja menn á sama tíma að fé vanti í innviði. Gleymum því ekki að þessir innviðir voru byggðir upp með fiskveiðum og sölu fiskafurða. Guðmundur Kjærnested, sú mikla hetja, er barðist fyrir okkur í þorskastríðunum gaf kvótakerfinu ekki háa einkunn. Til hvers var barist sagði hann ef auðlindin er á fárra höndum.

Skagamenn og góðir landsmenn! Losum okkur við óréttlátt kvótakerfi í fiskveiðum og bindum veiðar við byggðarlögin og leyfum fólki að bjarga sér. Með stórauknum veiðum þarf ekkert veiðigjald. Virðisaukinn og veltan kemur í gegnum veiðarnar og blómlegt mannlíf í sveltum byggðum þessa lands.  Tökum höndum saman og leggjum þessa viðurstyggð af sem kvótakerfið er.  Landsbyggðarþingmenn verða að fara að standa undir nafni og hætta að verja þetta kerfi. Varðmenn kvótakerfis leynast víða því miður. Nú er nóg komið.