Þingmannaraunir og sameiginlegir sjóðir á Vesturlandi

Jóhannes Finnur Halldórsson

Ég var að hlusta á þingmann í viðtali á RUV2 föstudaginn 10. maí sl.  Hann var nokkuð kátur með að ríkisstjórnin væri að ná tökum á verðbólgunni og hinum háum vöxtum.  Það er gott og vonandi gerist það, en vandamálið er að við erum búin að vera fást við vandamálið frá árinu 1920, með mismunandi miklum sveiflum og m.a. með afskurði á myntinni árið 1981.

Það var verið að bera saman vexti af 10 ára ríkisskuldabréfum í Evrópulöndum í blaðinu Economist, en það kom fyrst út 1843, þannig að Skessuhorn á langt í land, en kannski ná þeir því með sínum afburða fréttaskrifum og áhugaverðum greinum.

En hversvegna þessi samanburður á Economist og Skessuhorni.  Jú, hvernig væri að bera saman vexti sem að Economist skýrir frá og síðan hvað við búum við. Tökum sveitarfélögin á Vesturlandi sem dæmi: Samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga frá árinu 2022, þá skulduðu þau tæpar 11,3 milljarða króna.  Meðaltalsvextir í ESB voru 2,5%. Það þarf aðeins að gefa sér forsendur hér á landi vegna verðtryggingarnar, sem þekkist ekki í Evrópu, en ég tel að sé óhætt að segja að sambærilegir vextir fyrir sveitarfélögin á Vesturlandi séu 8% (kannski meira).  Miðað við það eru sveitarfélögin á Vesturlandi samtals að greiða um 619 milljónir króna meira í vexti á ári, en þyrfti að vera. Mætti gera ýmislegt fyrir það.

Ég geri mér grein fyrir því að þeir sem eru andvígir að við göngum í ESB og taka upp Evru hafa sín rök fyrir þeirri skoðun sinni og vilja eflaust sýna fram á, að það sé t.d. meiri ávinningur að vera með íslenska krónu, sem vegur á móti þessum vaxtamun. Frá því að ég varð þeirrar skoðunar að það væri hagfelldara á allan hátt fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að ESB, (á við allar atvinnugreinar, svo ég tali ekki um almenna borgara þessa lands), hef ég aldrei fengið almennilegan rökstuðning fyrir því að það sé betra fyrir okkur sem þjóð að standa utan ESB, þessa mikilvæga evrópska samstarfs.  Það er mikið um svör með þögninni.

 

Jóhannes Finnur Halldórsson