Þétting byggðar á Sólmundarhöfða?

Gísli Gíslason

Það vekur athygli að á sama tíma og bæjarráð Akraness samþykkir að ítreka vilja sinn til að varðveita og gera upp svonefnt Árnahús á Sólmundarhöfða, sem byggt var árið 1901, þá vill stjórn Dvalarheimilisins Höfða að húsið sé rifið. Stjórn Höfða ber fyrir sig tvennt: Annars vegar ástand hússins og hins vegar að fyrirhugaðar endurbætur á Árnahúsi hamli framtíðaruppbyggingu á Höfða.  Hvoru tveggja er athyglisvert.

Það er auðvitað ófært að mannvirki í eigu bæjarins grotni niður og að stjórn Höfða óttist að húsið „hluta eða öllu leyti geti fokið á húsnæði Höfða“.  Verður ekki betur séð en að formaður stjórnar Höfða hafi þar skyldum að gegna sem bæjarfulltrúi, en víða virðast þó verkefnin blasa við í viðhaldsmálum eigna kaupstaðarins. Hitt er ekki síður forvitnilegt að heyra hvaða hugmyndir eru uppi um framtíðar uppbyggingu dvalarheimilisins Höfða. Á dögum grenndarkynninga er spurningin hvort slíkar áætlanir liggi fyrir? Það vekur hins vegar sérstaka athygli að í aðalskipulagi Akraness segir m.a: „Á Sólmundarhöfða er óheft útsýni yfir Faxaflóa og þar má finna sögulegar minjar. Langisandur og Sólmundarhöfði eru í hverfisvernd vegna sérstöðu sinnar, landslags, náttúrufars og auðugs fuglalífs og hafa mikið útivistargildi.“ Og í framhaldi vaknar einnig sú spurning hvort fulltrúar Akraneskaupstaðar í stjórn dvalarheimilisins kannist ekki við þessa samþykkt?

Það er vissulega lofsvert að hugað sé að framtíðar uppbyggingu dvalarheimilisins, en það eru fleiri víddir í tilverunni en að sækja inn á svæði sem lýst er að hafi sérstöðu vegna landslags, náttúrufars og auðugs fuglalífs auk þess sem að þar séu sögulegar minjar. Kannski liggur að baki sú skoðun að rífa eigi allt sem er gamalt og úr sér gengið og að þétta eigi opin svæði með nýjum byggingum. Það minnir reyndar óþægilega á umræðuna sem átti sér stað varðandi Kirkjuhvol á sínum tíma þegar stjórn sjúkrahússins taldi það hamla framtíðar uppbyggingu, ef húsið fengi að standa.

Um nokkurt skeið hafa nokkrir áhugasamir aðilar boðið bænum aðstoð sína við það verkefni að endurgera Árnahús og finna því verðuga starfsemi. Í þeim efnum hefur einnig verið bent á hversu fjölfarið svæði Sólmundarhöfðinn er og hversu aðkallandi það er að lagfæra göngustíg um Höfðann – auk þess sem fyrir löngu er orðið tímabært að endurgera göngustíginn með Langasandi – sem kominn er til ára sinna. Á það hefur einnig verið bent að nauðsynlegt sé að verja ströndina við Sólmundarhöfða, en þar nagar ágangur sjávar jafnt og þétt úr landinu.  Þar er nú hafin vinna við landbrotsvarnir á stuttum spotta, sem er ánægjulegt.

Í önnum dagsins og stórum verkefnum bæjarins má ekki gleymast að opin svæði, íbúavæn og góð umhverfisverkefni skila ávinningi beint til bæjarbúa og þeirra gesta sem sækja bæinn heim. Skynsamleg varðveisla húsa og það líf sem í þau má færa fellur einnig þar undir. Það væri því ráð að stjórn Höfða líti í aðrar áttir varðandi framtíðar uppbyggingu en niður á Sólmundarhöfðann, enda líklegra að heimilisfólk á dvalarheimilinu muni á komandi árum, sem hingað til – njóta betur útivistar í hverfisverndaðri náttúru fólks og fugla.

Gísli Gíslason