„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson

„Þetta er algerlega galið,“ sagði Eyjólfur Ármannsson, þingmður Flokks fólksins og nýr samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á Útvarpi Sögu 12. september síðastliðinn. Tilefnið var frumvarp sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, hugðist leggja fram í annað sinn varðandi svonefnda bókun 35 við EES-samninginn sem felur í sér að almenn lög hér á landi sem eigi uppruna sinn í regluverki Evrópusambandsins í gegnum samninginn gangi framar löggjöf sem er innlend að uppruna.

„Þetta gengur ekki að stjórnarskránni vegna þess að þú getur ekki sagt í almennum lögum að ein tegund almennra laga sem á uppruna sinn í Brussel gangi framar öðrum. Þú verður að gera það í stjórnarskrá, að sjálfsögðu,“ sagði Eyjólfur enn fremur. „Þannig að ég vona að þetta verði bara ein tilraunin enn til þess að leggja þetta fram og það verði ekkert af þessu. Ég bara trúi ekki öðru. Við munum allavega, sem höfum áhuga á að verja fullveldi þessa samfélags, fullveldi Íslands, þeir munu berjast gegn þessu og ég ætla að gera það.“

Hins vegar var haft eftir Eyjólfi á Vísir.is á Þorláksmessu að hann ætlaði að greiða atkvæði með fyrirhuguðu frumvarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um málið. Spurður út í áðurnefnd og önnur orð hans fyrir kosningarnar gegn málinu sagði Eyjólfur að kveðið væri á um samþykkt bókunar 35 í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fyrir vikið myndi hann styðja það: „Þetta er inni í sáttmála ríkisstjórnarinnar og ég virði það samkomulag.“ Hvergi er hins vegar kveðið á um málið sem slíkt í stjórnarsáttmálanum.

Með öðrum orðum hyggst Eyjólfur, sem er lögfræðingur að mennt meðal annars með áherzlu á Evrópurétt, greiða atkvæði með frumvarpi sem hann hefur sjálfur lýst því yfir, ásamt ófáum lögspekingum, að fari gegn stjórnarskrá lýðveldisins af þeirri einu ástæðu að hann er kominn í ríkisstjórn og ekki lengur í stjórnarandstöðu. Mál sem hvergi er að finna í stjórnarsáttmálanum þrátt fyrir fullyrðingu hans um annað sem aftur vekur eðlilega upp spurningar um það hvort hann hafi lesið sáttmálann áður en hann var samþykktur.

 

Hjörtur J. Guðmundsson

Höf. er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).