Þess er krafist að röng ummæli verði dregin til baka

Ingólfur Árnason

Miðvikudaginn 9. maí síðastliðinn sendi Ólafur Hvanndal Ólafsson lögmaður Skagans 3X á Akranesi fjórum nafngreindum einstaklingum sem búa við Krókalón og Vesturgötu á Akranesi bréf í tilefni af röngum fullyrðingum sem þeir hafa haldið fram um meint lögbrot fyrirtækisins og óheimila landfyllingu á Grenjum árið 2012. Í bréfinu var þess farið á leit að tilgreind röng ummæli verði dregin til baka til þess að takmarka frekara tjón. Því hefur jafnvel verið haldið fram á samfélagsmiðlum að í bréfi Ólafs felist á einhvern hátt tilraun til þöggunar. Því vísa ég alfarið til föðurhúsanna og fór því fram á að bréfið yrði í heild birt í Skessuhorni í þeim tilgangi að færa umræðuna í réttari og skynsamlegri farveg.

 

Bréf Ólafs Hvanndal er dagsetti 9. maí 2018 og er þannig í heild:

„Málefni: Rangar fullyrðingar um meint lögbrot Skagans 3X og óheimila landfyllingu árið 2012 – krafa um að ummæli verði dregin til baka án tafar

Undirritaður gætir hagsmuna fyrirtækjanna Skagans hf., kt. 700498-2209, Þorgeirs & Ellerts hf.,  kt. 510794-2309 og 3X Technology ehf., kt. 520494-3329 en umrædd félög starfa saman undir alþjóðlega vörumerkinu og firmaheitinu Skaginn 3X (hér eftir verða umbj. mínir einu nafni nefndir Skaginn 3X).  Stærsti hluti starfsemi umbj. minna fer fram í leiguhúsnæði við Bakkatún og Krókatún á Akranesi en umræddar fasteignir eru í eigu fyrirtækisins Grenja ehf., kt. 570901-2490 og standa á eignarlóðum þess félags.

Í greinargerð sem fylgdi bréfi dags. 21. mars 2018 til Akraneskaupstaðar, sem ritað var af móttakendum bréfs þessa laut að ábendingum þeirra varðandi skipulagsáætlun um breytingu á aðalskipulagi hafnarsvæði H3 á Akranesi, er að finna ósannar fullyrðingar og rangfærslur sem beinast gegn umbj. mínum.

Í áðurnefndri greinargerð segir orðrétt: „Stærstur hluti starfseminnar á lóðum Skagans 3X er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag“. Í sömu greinargerð er fullyrt að landfylling sem var framkvæmd árið 2012 hafi ekki verið 2000 m2 eins og samþykkt var heldur 7000 m2.  Hin síðargreinda fullyrðing um stærð landfyllingar árið 2012 var einnig sett fram af Guðmundi Páli Jónssyni, Sveini Kristinssyni og Jóhanni Ársælssyni á almennum íbúafundi sem haldinn var í Grundaskóla, Akranesi þann 2. maí sl.  Rétt er að geta þess að Akraneskaupstaður hefur séð ástæðu til þess að leiðrétta þessar rangfærslur og vísast í því sambandi til fréttar sem birtist á heimasíðu bæjarfélagsins þann 4. maí sl.

Umbj. mínir telja það alvarlegt mál að slíkum rangfærslum um meint lögbrot sé haldið fram gegn betri vitund. Sér í lagi vegna stöðu þeirra sem héldu rangfærslunum fram en í því sambandi má nefna að Guðmundur Páll Jónsson og Sveinn Kristinsson voru oddvitar þeirra stjórnmálaflokka sem sátu í meirihluta í bæjarstjórnar þegar landfyllingin var samþykkt árið 2012.  Þá er bent á að Jóhann Ársælsson hefur átt sæti á Alþingi til fjölda ára og þá starfar Jónas Hallgrímur Ottósson sem rannsóknarlögreglumaður á Akranesi. Í því sambandi telja umbj. mínir það grafalvarlegt að einstaklingar með víðtæka þekkingu og reynslu af stjórnsýslustörfum, skipulagsmálum og lögfræði ráðist með þessum hætti að einkafyrirtækjum í þeim tilgangi að valda þeim skaða. Umbj. mínir telja það ekki síður alvarlegt og ámælisvert að rógburði og ósannindum um framkvæmd landfyllingar árið 2012 sé nú dreift í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf lýðræðislega kjörinna fulltrúa við framkvæmd skipulagsmála árið 2018.

Þá finnst umbj. mínum einkennilegt að ráðist skuli verið að alþjóðlega vörumerkinu Skaginn 3X vegna landfyllingar árið 2012 en þau félag sem að baki vörumerkinu standa eru málinu óviðkomandi enda eru þau hvorki eigendur fasteigna né lóða á svæðinu og þá áttu þau enga aðkomu að gerð umþrættrar landfyllingar árið 2012. Umbj. mínir telja að tilgangurinn með því að draga vörumerkið Skaginn 3X inn í mál þetta sé sá að valda sem mestum ímyndarskaða en fyrirtækin sem að vörumerkinu standa selja árlega vörur fyrir milljarða króna á erlendum mörkuðum. Umbj. mínir telja sig nú þegar hafa orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna málsins.

Í ljósi alls ofangreinds og til þess að takmarka frekara tjón er þess krafist að viðtakendur bréfs þessa dragi þau ummæli til baka, sem vísað er til hér að ofan og sett voru fram í greinargerð með bréfi til Akraneskaupstaðar dags. 21. mars 2018. Þá er þess jafnframt krafist að viðtakendur bréfsins, að Jónasi Hallgrími undanskildum, dragi til baka ummæli um meinta stærð landfyllingar frá árinu 2012 sem viðhöfð voru á íbúafundi í Grundaskóla, Akranesi, þann 2. maí sl.  Þess er krafist að framangreind ummæli verði dregin til baka með sérstöku afsökunarbréfi sem óskast sent til umbj. minna innan þriggja sólarhringa frá viðtöku bréfs þessa.

Umbj. mínir og eftir atvikum stjórnendur/eigendur þeirra félaga áskilja sér allan rétt til þess að  höfða dómsmál, án frekari aðvörunar, gegn viðtakendum bréfs þessa og krefja þá sameiginlega um bætur fyrir allt það tjón sem þeir hafa bakað umbj. mínum og stjórnendum/eigendum þeirra félaga með ummælum sínum.“

Þessu er hér með komið á framfæri.

 

Ingólfur Árnason.

 

Fleiri aðsendar greinar