Þegar orð verða að ákvörðunum

Liv Åse Skarstad

Á bæjarstjórnarfundi Akraness þann 27. janúar sl. var tekið mikilvægt skref í málefnum skammtímadvalar fyrir fötluð börn og ungmenni. Það var minnihluti Framsóknar og frjálsra sem óskaði eftir að málið yrði sett á dagskrá bæjarstjórnar – og ég fagna því að meirihlutinn varð við þeirri ósk.

Meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lagði fram tillögu í upphafi fundar sem fól m.a. í sér:

  • að gert yrði mat á þörf fyrir skammtímavistunarúrræði,
  • að skoðuð yrði uppbygging skammtímadvalar á Akranesi, m.a. á lóð við Laugarbraut 6,
  • að ráðist yrði í kostnaðargreiningu, skipulags- og hönnunarvinnu,
  • og að málinu yrði vísað til Velferðar- og mannréttindaráðs til áframhaldandi vinnu.

Við í minnihlutanum fögnuðum þessu framtaki. Það er jákvætt að horfa til uppbyggingar og framtíðarlausna hér heima. Um leið bentum við á eitt sem okkur fannst skipta sköpum; þörfin sjálf er þegar ljós. Hún er ekki fræðileg né óljós. Hún blasir við.

Staðreyndin er sú að 106 börn eru á biðlista eftir skammtímadvöl á Vesturlandi. Fjölskyldur finna fyrir þessu á hverjum degi. Því töldum við óþarft að stoppa lengi í greiningum á því hvort þörf væri til staðar – heldur ættum við að sýna skýran vilja til samstarfs strax.

Þess vegna lögðum við fram breytingartillögu um að ganga skrefinu lengra og fela bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsingu um uppbyggingu skammtímadvalar á Vesturlandi, fyrir hönd Akraneskaupstaðar. Ekki bara lýsa okkur „tilbúin til samtals“, heldur taka afstöðu í verki.

Sú breytingartillaga var samþykkt, með stuðningi eins fulltrúa úr meirihlutanum. Það skiptir máli. Það sýnir að þegar rök eru málefnaleg og markmiðið skýrt – þá er hægt að ná niðurstöðu þvert á pólitískar línur.

Ég tel þetta góðan dag fyrir börnin og fjölskyldurnar þeirra. Og líka góða áminningu um að minnihlutinn á að hafa raunveruleg áhrif, þegar hann vinnur af ábyrgð og með hag heildarinnar að leiðarljósi.

Nú höldum við áfram – með samvinnu, skýrleika og börnin í forgang.

 

Liv Åse Skarstad