Þarf Upplifunarsamfélagið sýnilega föstu?

Arnaldur Máni Finnsson

Áskorun á föstunni: #sjöfimmtudagar

Það er sem fyrr að okkur mannfólkinu finnst eðlilegt að líta til „vorra tíma“ sem hinna einu og sönnu og bestu; svona heilt yfir. Jafnvel óhófið, neyslumenningin og dómharkan í öllum hornum verða í okkar augum aðeins birtingarmynd þess sem kallar einstaklinginn til aukinnar meðvitundar um sig sjálfan og náungann. Þess vegna verður það svo að við einhendum okkur í allskyns áskoranir, átök, herferðir og skammtímalausnir til að mæta náttúrulegri þörf fyrir jarðtengingu í þessum hamagangi öllum sem lífsgæðakapphlaupið er. Þannig munum við öðlast; betri fókus, meiri framlegð og aukna hamingju. Og er það ekki allt sem skiptir máli?

Rætur nútímaföstunnar?

Fastan gengur í garð og hefðirnar reka hverja aðra, svona með nútímalegum aðlögunum. Passíusálmarnir í flutningi Péturs Gunnarssonar hófu göngu sína fyrir nokkrum vikum; nú eru þeir ekki lengur fluttir í beit frá upphafi föstu og fram að páskum heldur bara á virkum dögum. Það er hversdagsleg áskorun að láta það ekki fara í taugarnar á sér. Við sjáum í því eins og öðru að hinn „kristni vefnaður“ samfélagsins leysist upp í takt við það hvað samtímanum finnst „skemmtilegt“. Það er kannski bara blessun að fólki finnist ennþá „skemmtilegt“ að taka þátt í allskonar áskorunum. Reyna á sig með einhverjum hætti. Hlaupa í þágu málsstaðar eða leggja eitthvað á sig – oft í þágu annarra – í þeirri von að það áþreifanlega sem við framkvæmum í okkar eigin þágu (t.d. heilsuátak) hafi áhrif á aðra, án þess að við þurfum að fylgjast sérstaklega með því hver þau áhrif eru. Við trúum því að þau séu góð. Það er nóg. Og skemmst er frá því að segja að öll þessi „átök“ eru hluti af gamalli hefð, andlegri iðkun og sjálfsafneitun. Að miklu leyti þörfinni fyrir íhugun og tilgang.

Og þessvegna borðuðum við bollur, þöndum okkur með saltkjöti og snúum öllu á haus á öskudaginn; í samræmi við hefðirnar sem tengdar eru föstuinnganginum. En svo halda dagarnir áfram að koma og ekkert breytist; við föstum ekki eða íhugum lengur í aðdraganda páskanna sérstaklega. Við höfum skipt þörfinni fyrir föstuna út fyrir „átakið“ sem við förum í – þegar okkur sjálfum hentar. Auðvitað. En þannig eru tengslin við andlegan þátt allra þessara áskorana líka rofin, og samhengi hins „kristna vefnaðar“ þynnist og þynnist. Við skiljum minna og minna. Og er það ekki verra, þegar samtíminn krefur okkur um að sjóndeildarhringurinn víkki stöðugt?

Fastan snýst um meðvitund

Í fjölbreyttri menningu kippum við okkur ekki upp við að einn hópur hafi aðrar þarfir en annar og færumst stöðugt nær skilningi á sérstöðu fólks… …ef það tilheyrir hópi. Eins gengur almennt ágætlega upp þegar einstaklingar eru í einhverju átaki og því mætt af skilningi, enda oftast heilsa og heilbrigði þar undir. En finnst okkur það ekki líka þurfa vera sýnilegt? Ef það er ekki „merkt“ einhvern veginn þá sjáum við ekki merkinguna, sem einstaklingar og samfélag. Sem dæmi má nefna að í umhverfismálum verður ávinningur aukinnar meðvitundar ekki áþreifanlegur fyrr en sveitarfélagið fær „umhverfisvottun“. Þetta á sér djúpar rætur í því að staðin séu skil á einhverju og sannreynt að kröfunum hafi verið mætt. Svipað og þegar prestar fyrri alda tóku syndaregistur af mönnum og afleytu, svo viðkomandi gæti gengið til altaris á páskum. Að ganga til altaris var yfirlýsing um að virða samfélagssáttmálann.

Fastan snérist þannig um meðvitundina um gjörðirnar frekar en að murka úr sér lífið með meinlætum. Og um það snýst fastan enn í dag, ef við viljum leyfa henni að vera hreinsunartímabil eftir veturinn og myrkrið. Að við gerum hreint fyrir okkar dyrum með hækkandi sól og hleypum ljósinu inn til að efla okkur og styrkja hvern dag.

#sjöfimmtudagar

Í dag er sjöundi fimmtudagur fram að skírdegi og áhugavert að stilla fókusinn fram að páskum. Er ekki spennandi að setja sér það markið að huga að því, hversu kristin sem hver telur sig vera, að á hverjum fimmtudegi ætli maður að setja sér það fyrir að pæla í einhverju sérstöku um helgina. Kannski því hvernig maður eflir tengslin við annað fólk eða bætir heilsuna með aðhaldi í neyslunni?  Í raun þarf engar leiðbeiningar og hver og einn ætti að geta fundið sitt íhugunarefni; því það er áskorun líka. Undirritaður mun aftur á móti smella í pistil hvern fimmtudag hér í Skessuhornið, svona til að minna þau ykkar á sem þurfa skriflega áminningu til að halda sér við efnið. Og þið þurfið ekkert að merkja myndirnar ykkar á samfélagsmiðlunum með #sjöfimmtudagar til að vera með – en þið megið það alveg, ef heldur ykkur við efnið.

Arnaldur Máni Finnsson.

Höf. er sóknarprestur á Staðastað

Fleiri aðsendar greinar