Þakkir til Vestlendinga

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Nýlega hófum við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu hringferð um landið í því augnamiði að ræða milliliðalaust við landsmenn um nýja heildræna stefnu í málefnum fatlaðs fólks og hvað fólki er efst í huga á hverjum stað. Við áttum fjölmennt og gott samtal í Borgarnesi við fólk víða af Vesturlandi.

Loksins lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur á kjörtímabilinu og ný mannréttindastofnun sett á laggirnar. Þessi verkefni eru á forræði forsætisráðuneytisins og eru í vinnslu. Og, við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, vinnum nú í víðtæku samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, ráðuneyti, sveitarfélög og almenning að gerð landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu samningsins. Þ.e.a.s. að koma þeim skuldbindingum sem felast í samningnum til framkvæmda hérlendis.

Landsáætlun um framkvæmdina

Þó svo að margt hafi færst til betri vegar á undanförnum árum og áratugum, þá nýtur fatlað fólk færri tækifæra og stendur frammi fyrir fleiri hindrunum í daglegu lífi en ófatlað fólk. Til dæmis eru tækifæri til menntunar og atvinnu færri og fatlað fólk er líklegra til að missa vinnuna á undan öðrum og verða fyrir margvíslegu ofbeldi. Þetta er óréttlæti sem felur í sér ójöfnuð og skert lífsgæði sem ég á erfitt með að kyngja og þess vegna legg ég áherslu á breytingar.

Með aðgerðum í landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mun verða grundvallarbreyting hvað varðar viðurkenningu á réttindum, menntun, störfum og aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu.

Við höfum hafið mikilvæga vegferð og ég vil þakka þeim sem gáfu sér tíma í Borgarnesi fyrir afar góða umræðu og innlegg í þessa mikilvægu vinnu.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Höf. er félags- og vinnumarkaðsráðherra