Þakkir og hamingjuóskir á tímamótum

Bergþór Ólason

Niðurstaða kosninganna varð okkur í Miðflokknum heldur mótdræg, en svona gengur þetta fyrir sig í pólitíkinni. Miðflokkurinn sem fékk svo glæsilega kosningu fyrir fjórum árum átti á brattann að sækja í þetta skiptið, en heldur þó þriggja manna þingflokki, sem er staða sem aðrir flokkar hafa áður fundið sig í og komið sterkari til baka.

Athyglisvert er að Miðflokkurinn er með flest atkvæði allra flokka á bak við hvern þingmann. 3626 á meðan Framsókn er með 2653, Sjálfstæðisflokkur 3044 og Píratar 2876. Það eru sem sagt 26% fleiri atkvæði á bak við hvern þingmann Miðflokksins en Pírata.

Ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig og framboðið í Norðvesturkjördæmi. Það var ómetanlegt að finna velviljann og kraftinn í Miðflokksfólki í baráttunni um land allt og ég veit að sá öflugi hópur mun ekki láta deigan síga.

Kjörtímabilið sem nú er liðið hefur verið sérstakt, mjög sérstakt. Nú skiptir mestu máli að tryggt verði að atvinnulífið geti skapað þá viðspyrnu og þau verðmæti sem nauðsynleg eru, til að land og þjóð geti rétt úr kútnum eftir það áfall sem þjóðarbúið varð fyrir.

Að endingu vil ég óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið, um leið og ég þakka þeim sem hverfa af þingi fyrir samstarfið.  Það eru áhugaverðir tímar fram undan.

 

Bergþór Ólason

Höf. er þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi