
Þakka ber það sem vel er gert
Flemming Jessen
Síðastliðið fimmtudagskvöld ókum ég og frúin vestur í Lyngbrekku. Tilefnið var að sjá sýningu Leikdeildar UMF Skallagríms á leikritinu Slá í gegn, sem byggir á lögum Stuðmanna. Þessari kvöldstund var svo sannarlega vel varið og gaman til þess að vita að enn finnist áhugasamur hópur sem leggur á sig ómældar stundir við æfingar og sýningar í heimahéraði.
Leikritið er sem áður hefur komið fram byggt í kringum lög Stuðmanna sem öll eru grípandi og voru og eru mikið spiluð. Létt og með góðum textum sem flestir kunna af plötum og úr kvikmyndum. Ekki ætla ég mér að skrifa ritdóm um frammistöðu leikenda, en segja má að áhugi og gleði hafið einkennt alla þá sem á sviðinu voru. Allir lögðu sig fram og segja verður að hér sannist að í okkur öllum leynist þrá til þess að stíga á svið. Á sviðinu voru reyndir jaxlar og svo aðrir að stíga sín fyrstu spor. Þessi hópur dansaði og söng af mikilli innlifun, já svo að einnig við áhorfendur sungum með – í hljóði -.
Leikdeild Umf. Skallagríms hefur undanfarin ár sett upp metnaðarfullar sýningar og vonandi verður svo áfram. Við, fólkið í héraði, eigum að vera dugleg að sækja viðburði sem þennan og sýna þeim sem vinnuna á sig leggja þá virðingu að mæta, fylgjast með og gleðjast.
Takk áhugafólk um leiklist fyrir gott framlag ykkar til þess að skemmta okkur hinum.
Haldið áfram – þið auðgið mannlífið.
Flemming Jessen