Það þarf þorp…

Tinna Steindórsdóttir

Það er dimmt og kalt úti. Undarlegar verur eru á sveimi um skólalóð Brekkubæjarskóla á Akranesi. Hvert skyldu þær vera að fara?

Jú, það stendur nefnilega mikið til hjá börnum og foreldrum í 1. BS í Brekkubæjarskóla. Foreldrarnir hafa ákveðið að koma saman og halda hrekkjavökuball fyrir skólakrakkana sína. Búið er að skreyta húsnæði frístundarinnar með kóngulóarvef og leðurblökum, setja djús í stóran nornapott og græja diskó í innsta herberginu fyrir lítil skrímsli og nornir. Krakkarnir mæta spenntir og glaðir með foreldrum sínum, sumir foreldrar meira að segja í búning líka. Krakkarnir hlaupa beint inn í diskóið og fara að leika við bekkjarfélaga sína. Krakkar sem verða sennilega samferða alla sína skólagöngu.

Við foreldrarnir verðum eftir frammi, allir svolítið feimnir og vandræðalegir. Fljótlega bráir samt af okkur og við förum að spjalla saman, enda eigum við það öll sameiginlegt að eiga barn í 1. bekk í Brekkubæjarskóla og margt sem við getum spurt um og speglað í hvert öðru. Það eru nefnilega ekki bara börnin sem verða samferða næstu 10 árin, heldur líka við foreldrarnir.

Þar sem við sitjum þarna öll saman þá finnum við hvað það er gott að tengjast, finnum hvað það er mikilvægt að við séum öll saman í því að halda utan um þessa flottu krakka sem við eigum. Ef við hjálpumst að næstu árin, ef við erum dugleg að tala saman og mynda samstöðu í þeim málum sem geta komið upp í stórum árgangi, þá erum við að gefa börnunum okkar afskaplega dýrmæta gjöf.

———

Það er nefnilega þannig að þegar börnin okkar hefja skólagönguna sína þá eru þau að stíga sín fyrstu skref í að láta reyna á sjálfstæðið sitt. Við getum því miður ekki gengið við hlið þeirra og haldið í höndina á þeim alla skólagönguna þó að við vitum öll að á þessari 10 ára skólagöngu muni barnahópurinn okkar takast á við margar áskoranir.

Það getur komið upp einelti, útilokun, einmanaleiki. Börn í hópnum geta lent í alvarlegum veikindum, missi, erfiðum heimilisaðstæðum. Eftir því sem þau stækka verða líka ýmsar hindranir í umhverfi þeirra sem þau þurfa að yfirstíga. Símavæðing, kynþroski, klámvæðing, vímuefni, þunglyndi, kvíði… Því miður er þessi listi langur og við vitum að við getum ekki alltaf verndað þau fyrir þessu öllu saman. En þessi gjöf sem við getum gefið þeim er að taka þátt í að mynda samstöðu í foreldrahópnum sem stendur að þessum dýrmætu einstaklingum. Myndað öryggisnet sem grípur krakkana okkar þegar þeim skrikar fótur.

Rannsóknir sýna nefnilega að einn stærsti verndandi þáttur í lífi barnanna okkar á þessum mikilvægu árum er foreldraþátttaka. Það hefur sýnt sig að öflugir foreldrar og öflugt foreldrasamstarf er verndandi þáttur fyrir öll börn, ekki bara börn foreldranna sem taka þátt, heldur þau öll!

Foreldraþátttaka er nefnilega ekki endilega að vera sá sem býður sig fram sem bekkjarfulltrúi eða sá sem sér um að halda utan um fjáröflun fyrir Reykjaskóla. Foreldraþátttaka er líka að til dæmis styðja við foreldra sem taka af skarið með því að taka þátt í hlutunum. Mæta á viðburði í hópnum, líka við færslur frá kennurum og foreldrum á árgangasíðunni og sýna að þú sért að fylgjast með, taka þátt í samræðum um snjallsímaeign, rafmagnshlaupahjól, skjátíma, útivistartíma og allt þar fram eftir götunum. Samstaðan sem myndast í foreldrahópnum við þessa þátttöku er þessi dýrmæta gjöf sem við gefum barnahópnum saman, þessi verndandi þáttur sem mun grípa ekki bara mitt barn, heldur öll börnin í hópnum. Það þarf nefnilega þorp til þess að ala upp barn og þorpið virkar best ef við tölum saman.

——–

Fjörið er að færast í aukana í hrekkjavökupartýinu og nú förum við foreldrarnir allir að dansa með krökkunum í diskóherberginu. Þar sem við erum þarna öll saman, dansandi við krakkana okkar, öll hálf vandræðaleg en samt hlæjandi því þetta er svo gaman, þá finn ég til þakklætis fyrir að tilheyra svona öflugum foreldrahópi. Ég veit að ef við náum að rækta áfram þessi tengsl, þetta net á milli okkar, þá mun þetta net styðja við skólastarfið og grípa krakkana okkar ef eitthvað kemur upp á.

Og það eina sem ég þarf að gera til þess að barnið mitt hafi þetta verndandi öryggisnet – er að taka þátt.

  1. Foreldrar sem vilja fá aðstoð við að koma af stað samstarfi í sínum foreldrahópi geta haft samband við AK-HVA foreldrasamtökin á facebook.

PPS. Endilega skoðið upplýsingar um „foreldrasáttmála“ á heimasíðu Heimilis og skóla, frábær leið til þess að brjóta ísinn í foreldrahópnum: http://www.heimiliogskoli.is/…/HS_foreldrasattmali_1-4.pdf

 

Fyrir hönd foreldrahóps 1. BS;

Tinna Steindórsdóttir