Það sem mamma þín sagði

Steinunn Eva Þórðardóttir

-Pistill um orkuleysi, sjálfstjórn, meðvitund og umbreytingu

Orkuleysi virðist vera eitthvað sem fólk upplifir í miklum mæli. Kannski er það aldurinn en ekki endilega því ég þekki mikið af fólki sem er komið vel inn í gullnu árin og geislar af orku og lífsgleði. Markaðurinn fyrir allskonar sem á að endurvekja okkur, blómstrar og hver sem hefur komist út úr þessu er með sína lausn. Ef þú heldur að ég sé með lausnina getur þú hætt að lesa núna, ég veit ekki SVARIÐ, en hef kynnt mér ýmislegt um málið og aukið mína eigin orku. Það sem ég hef lært eru yfirleitt svo mikil grundvallaratriði að það er eiginlega vandræðalegt að fara að segja fullorðnu fólki þau, en ég var samt sjálf ekki nógu meðvituð um þau þegar ég byrjaði að umbreyta mér. Kannski er það bara ég, kannski ekki.

Það sem kemur á undan öðru er að hvíla sig nóg, sérstaklega að sofa meira. Allar þær rannsóknir sem ég hef rekist á eru sammála um að nútímafólk sefur almennt og að staðaldri of lítið. Þannig að ef þér finnst þú mega við meiri orku á daginn prófaðu að sofa aðeins meira, fara korteri fyrr í rúmið. Auka það svo smám saman þar til þú færð þína 8 til 9 tíma eða hvað það er sem þú þarft. Það sem þú munt líklega upplifa er að við það eykst einnig svokallaður viljastyrkur. Svokallaður segi ég því að hann er víst mun líkamlegri en við höfum haldið. Viljastyrkur til að fylgja skynsamlegu mataræði, eða fara í ræktina er ekki bara í hausnum. Viljastyrkur er ekki annað hvort eða. Hann er takmörkuð auðlind þannig að við getum klárað hann t.d. er fólk sem er duglegt að fylgja ströngu mataræði líklegra til að missa sjálfstjórnina á öðrum sviðum. Það væri dæmigert að neita sér um kræsingar í fermingarveislu en keyra svo of hratt heim aftur eða hreyta einhverju út úr sér af ómerkilegu tilefni þegar heim er komið.  Sjálfstjórn er samt líka eins og vöðvi; þú getur þjálfað hana á margvíslegan hátt. t.d. með því að hafa litlar æfingar, stilla þig um eitthvað smávegis daglega til að byggja hana upp. Einföld og fljótleg leið er að auka viljastyrk er að stunda núvitund, það bæði minnkar stress og byggir upp viðnám við freistingum. Fáeinar mínútur á hreyfingu hjálpa, eins og að fara út að ganga í 5 mínútur, vinna í garðinum, eða bara að standa upp frá skrifborðinu og tvístíga eða teygja sig, svo dæmi séu tekin. Mikil hreyfing sem gerir þig þreytta/n gæti virkað öfugt og líka gefið innra „leyfi“ til að láta eftir sér eitthvað óskynsamlegt. Mataræði hefur áhrif, það að borða meira grænmeti ýtir undir sjálfstjórn. Það að verja góðum stundum með vinum eða við trúariðkun líka.

Það sem étur upp viljastyrk hinsvegar er eiginlega allt álag bæði andlegt og líkamlegt (ég tek svona til orða en í alvörunni er engin greinarmunar á andlegu og líkamlegu). Kvíði, einmanaleiki, streita, krónískir verkir eða sjúkdómar tæma af viljastyrkstankinum. Jafnvel mengun og hávaði í umhverfi draga úr viljastyrk. Auðvelt er að sjá hvernig fólk getur fest í vítahring þar sem lífsstíllinn eða veikindi draga orku frá þeim, sem gerir breytingar til hins betra erfiðari því sjálfstjórn krefst orku.

Einfaldasta leiðin til að byrja að þjálfa sjálfstjórn er að æfa sig í að hægja á öndun, þannig að þú náir 4-6 andardráttum á mín. eða þannig að hver öndun taki 12-15 sek. Þessi einfalda æfing hefur hjálpað fíklum að halda sér edrú, og haldið þunglyndi frá fólki í meðferð við áfallastreituröskun. Æfingin hefur aukið sjálfstjórn og minnkað streitu hjá fólki í krefjandi störfum eins og við löggæslu eða í hlutabréfaviðskiptum, sem þurfa að „halda haus“. Svona hæg öndun eykur hjartsláttarbreytileika og bætir samstundis viljastyrkinn. Gott að gera hana fyrirfram ef þú veist af freistingum á leiðinni. (Hjartsláttarbreytileiki er breytileiki í bili hjartsláttar, sem er það sem kemst næst því að vera líkamleg mæling á viljastyrk.)

Þannig að þetta kemur saman í því sem mamma þín sagði þér þegar þú varst barn; farðu snemma í rúmið, borðaðu grænmetið þitt og farðu út að leika til að fá súrefni í kroppinn. Ég er reyndar ekki mamma þín en ég vil bæta við núvitund. Það að gefa sér tíma til að auka meðvitund sína er forsenda þess að breyta einhverju, bæði þarftu að fatta hverju þú vilt breyta og auka viljastyrkinn til þess. Mitt „Svar“ er því; byrjaðu á að anda, rólega. Þetta er ekki flókið.

 

Steinunn Eva Þórðardóttir

 

 

Aðallega byggt á bókunum The Willpower Instinct: How Self-Control Works, Why It Matters, and What You Can Do to Get More of It, eftir dr. Kelly McGonigal og Walter Dixon og How to Boost Your Physical and Mental Energy eftir dr. Kimberlee Bethany Bonura; og svo því sem mamma sagði.