Það má gera mikið fyrir það sem niðurrif kostar

Unnur Jónsdóttir

Kæri lesandi!

Mig langar til að eiga við þig orð um ýmislegt sem ég er að hugsa um þessa dagana. Ég geri því skóna að þú hafir skoðanir á því líka og jafnvel möguleika á að hafa áhrif.

Hvað er það þá, sem um er að ræða? Það er Sementsverksmiðjan, bjargvættur bæjarins í tæp 60 ár. Það er talað um „Sementsreitinn“ eins og einhvern lítinn vasaklút! Rífa verksmiðjuna og byggja lítil hús á ströndinni –sísvona. Það kostar mikið að rífa hús, en þetta er ekkert venjulegt hús þótt ekki væri nema vegna þess að veggirnir eru ansi ríflega járnbundnir, það tíðkaðist þá.

Það, sem mig langar að hvísla að þér lesandi góður er, að ég vil ekki rífa verksmiðjuna, ég vil að „fræðingar“ sem kunna hlutina finni not fyrir þau rými sem í henni eru. Það vantar pláss fyrir tómstundir og ýmiskonar starfsemi og plássið er þarna. Borðstofa, eldhús, skrifstofur svo talað sé um eitt hornið. En þeir sem kunna fara létt með að nýta það sem ótalið er.

Eyðum ekki í að henda, sýnum þessum gullmola okkar virðingu. Á þessum margumtalaða Sementsreit er líka sandkvörn með varnargarði sjávarmegin. Þetta svæði myndi sóma sér vel sem skrúðgarður.

Almenningsgarður er eitt af því sem vantar hér í bæ. Fallegur garður þar sem hægt væri að njóta næðis, fá sér göngu með barnavagninn eða bara sjálfan sig, setjast á bekk í skólskini og friði. Þetta er stórt svæði, sem er ögrun fyrir garðarkitekta, ef fengust til að sinna því. Þarna gæti margur þegið að hafa púttvöll og kannski fleira, nóg er plássið.

Hugsið málið. Nýtum það sem við höfum.

Kæri lesandi, nú er ég búin að segja þér hvaða hugsanir sækja á mig þessa dagana.

Notum kunnáttu þeirra sem hana hafa, það er óþarfi að rífa verksmiðjuna, sýnum henni og þeim sem hana reistu þá virðingu að leifa hugmyndaríkum fræðingum að finna not fyrir það rými sem þarna er. Það má gera mikið fyrir það sem niðurrif kostar.
Unnur Jónsdóttir
Höf. er fyrrverandi röntgenstarfsmaður.