Það flæðir sem er fullkomnað

Arnaldur Máni Finnsson

Við stefnum mörg, jafnvel flest öll, að einhverslags marki og finnst það eðlilegt. Sagan hefur sinn gang og stefnir í eina átt. Að okkur finnst. Mannsævin og framfarirnar eru mælikvarði alls. Fastan, sem nú líkur með föstudeginum langa og aðfangadegi páska, er í eðli sínu ekki tímabil sem stefnir að „eigin marki“ – það verður engin hápunktur sem mælir árangur. Föstunni lýkur bara. Eins og þögn. Fegurðin við góða þögn er sú að það sem við finnum í henni kemur oft löngu síðar í ljós, verður að orðum eða framkallast í gagnlegu verki. Öll þau tímabil sem við notum til íhugunar eru hluti af ræktarsemi við andann, og ávextir kyrrðar eru ekki einsleitir. Við mannskepnurnar erum svo heppin að vera ólík og allskonar, og þegar andinn nærir spretta blómin af fræjum og mold, fyrir lífskraft ljóss og vatns.

Í heimi tákna og líkinga

Til að tapa ekki þráðum sögunnar, samhengi fortíðar, þá þurfum við nauðsynlega á því að halda að hafa skilning á myndmáli lífsins; í því felst sköpunarkraftur, kærleikur og samlíðan. Greiningar- og ályktunarhæfni mannsins hefur aukist og stigmagnast ár frá ári. Tæknin, rökhyggjan, skynsemin. Skynjun okkar og skilningur heldur varla í við „framfarirnar“ – enda er tilgangur hins vélræna ekki samfylgdin með sál og anda mannsins. Hið vélræna – tæknin – miðar aðeins að eigin vexti, auknum hraða, meiri skilvirkni, framleiðslu; já virðisauka sem felst í hinu sýnilega eða áþreifanlega. Því sem áður var kallað forgengilegt, veraldarinnar eða jafnvel „heimsins“ – en færri þora að skilgreina í dag án þess að nota hagfræðileg hugtök.

Svarthol

Skilgreiningarvald rökhyggjunnar heimtar alræði, en þekkir ekki takmörk sín. Heimur og saga mannsins er þroskasaga, ekki rannsóknarskýrsla. Myndin af svartholum geimsins er sú sama og kviknar inná augnlokum þínum þegar þú hvílist. Það er ekki „röng niðurstaða“ eða óvísindaleg, heldur ljóðræna þverstæða sem gæðir heim fegurð. Gefur táknum líf. Ef mannskepnan hefði aldrei tekið það skref að láta tákn standa fyrir „heilan heim“ sem býr að baki, þá værum við enn bara apar að slást á afmörkuðu svæði, flóttaviðbragðið og árásarhneigðin einu pólarnir í sálarlífi okkar, og þekkingin bundin afluktum hring blóðtengsla. Guði sé þökk fyrir að birtast í táknum, hverfast inn í söguna með líkingum og í líkingu manns. Það eitt að skynja Orðið er að vera skáld.

Orðið sem skapar skortir ekki

Fastan fjallar ekki um skort heldur skilning, hún er tímabil þar sem okkur er ætlað að vera meðvituð svo við skynjum innra rýmið og jafnvel tómleikann. Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði – segir í upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls. Og Orðið var Guð. Kristur kom í heiminn og varir, það er trú kirkjunnar og kjarni kristins mannskilnings. Líkt og Guð er tákn sköpunar og ljóss, þá er Kristur tákn þekkingar og fyrirgefningar (eða endurlausnar á máli guðfræðinnar). Þar sem þessi tákn renna saman fæðist kærleikurinn.

Samfélag kirkjunnar er í eðli sínu samfélag andans, en ekki vélrænt ferli sem miðar að sjálfvirkni, tæknilegri fullkomnun eða endimarki. Það er til fyrir okkur sem farvegur leitar, þroska og þakkargjörðar. En þetta er ekki prédikun, heldur lokaþanki í syrpu um innihald og merkingu föstunnar í kristnum sið.

Kærleikur, gleði, þolgæði og hógværð. Að lokinni þögn taka ávextir andans að flæða úr tómu rými; gröfin er tóm en páskaeggið fullt af speki og fögnuði.

Að boða eða bjóða

Þegar við mætum páskum í anda upprisunnar þá trúum við á sköpunarkraft Guðs og mátt Orðsins til að umbreyta þögn í skilning og myrkri í von. Að „hel og harmur verði Drottins náðarfaðmur“ á rökhyggjan erfitt með að sannreyna sem gagnlega teoríu, en eins og skáldið Ísak Harðarson orti – þá er „faðmur Guðs negldur opinn / ást hans og hjarta blóðnegld opin“ fyrir okkur öll sem ekki gátum trúað því að til væri nógu sterk ást til að fræ vonar mætti spíra í okkur líka. En það spírar því að í stað skorts finnum við rými, í stað vanmáttar krossins greinum við bjarmann af upprisunni og finnum í möguleikum vorsins bragðið af sannleikanum sem gerir alla hluti nýja. Þar flæðir af gnægð. Þér er ekki boðuð bönn og böl. Þér er boðinn faðmur ljóss og hið skapandi orð. Svo fagnið í vissunni yfir því að skynja það sem þarf til, svo lifa megi af á jörðunni.

 

Gleðilega páska!

Arnaldur Máni Finnsson

Höf. er sóknarprestur á Staðastað.

Fleiri aðsendar greinar