Það er vetur á Íslandi í mars 2022

Ferðaþjónar í Dölum

Fimm manna erlend fjölskylda er á ferð um Ísland og planið er að fara í þjóðgarðinn Snæfellsnes, gista þar í nágrenni eina nótt og eyða góðum parti næsta dags á svæðinu. Kíkja á Kirkjufellið og skoða Hólminn, en aka svo Skógarströnd inn í Dali. Hitta þar fólk og dýr, njóta útiveru og gista þar næstu nótt. Halda svo áfram norður yfir Laxárdalsheiði og í nágrenni Blönduóss er næsta stopp.

Svona eru margir sem skipulegga ferð sína um Ísland. Á sumrum ekur fjöldinn allur af ferðamönnum yfir Laxárdalsheiði og Skógarströnd til að komast á milli Norðurlands og Vesturlands, ekki vegna þess að þetta er styrsta leiðin, heldur vegna þess að á leiðinni er margt að sjá og skoða.

En nú er vetur og þessir vegir ekki þjónustaðir nema með allramesta lágmarki og alls ekki um helgar. Það var einmitt í dag sunnudaginn 20. mars sem við áttum von á hópi íslenskra nema í Leiðsöguskólanum, en þeir voru að koma frá Stykkishólmi og ætluðu um Skógarströnd. Kynna sér lítillega hvað er í boði í Suðurdölum, hitta fólk á Eiríksstöðum og Erpsstöðum. Veður er dásamlegt, en ófært um Álftafjörð og Skógarströnd. Starfsmenn Vegagerðarinnar treysta sér ekki til að mæla með leiðinni í dag, því það er ekki hreinsað um helgar. Ekkert annað að gera en að aka sem leið liggur beint heim aftur frá Stykkishólmi og framtíðar leiðsögumenn læra í ferðinni að það sé ekki á Dalina að treysta.

Við markaðssetningu ferðafyrirtækja í Dölunum fáum við líka mjög oft þau svör hjá ferðaskrifstofum að þær geti ekki tekið áhættuna af því að skipuleggja ferð sem inniheldur Skógarströndina. Þrátt fyrir spennandi afþreyingu í Dölum verða til slæmar minningar á Skógarströnd og draga niður upplifun gesta.

Svo er verið að tala um mikilvægi þess að efla samgöngur innan svæða, en eins og oft áður, þá eru Dalirnir afgangs stærð. Hér er ótryggt rafmagn, ótryggt fjarskiptanet, ótryggar samgöngur innan héraðs. Hins vegar jafnan gott veður, gott fólk, góðar sögur og góður ís.

 

Anna Sigríður Grétarsdóttir, Dalakoti

Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Eiríksstöðum

Guðrún Björg Bragadóttir, Dalahyttum

Þorgrímur Einar Guðbjarsson, Erpsstöðum