
Það er gefandi og á sama tíma krefjandi að vinna í leikskóla
Hildur Sveinsdóttir
Við sem veljum okkur þennan starfsvettvang vinnum okkar störf með þá hugsjón að hlúa sem best að börnunum, halda uppi faglegu og góðu starfi svo börnin fái sem mest út úr sinni leikskólagöngu. Við erum jú fyrsta skólastigið og innan leikskólans er kennd færni og gildi sem nýtast út allt lífið. Hagur barnanna er hafður að leiðarljósi og er það okkur mikilvægt að börnin uni sér vel bæði í leik og starfi.
Innan leikskólans starfar fólk með misjafnan bakgrunn, menntun og reynslu. Hver starfsmaður er mikilvægur hlekkur í starfinu því öll höfum við misjafna kosti fram að færa og leggjum öll okkar af mörkum til að gera leikskólann sem bestan. Við vinnum öll að sama markmiðinu og erum tilbúin að leggja mikið á okkur til þess að allt gangi sem best.
Það er því leiðinleg staðreynd að störf okkar leikskólastarfsfólks séu ekki metin til betri launa og að það sé svona erfitt að semja um að við sem tilheyrum aðildarfélagi BSRB fáum okkar launahækkanir frá sama tíma og þeir sem tilheyra aðildarfélögum ASÍ. Við vinnum hlið við hlið sömu störfin og verðmiðinn á okkur á ekkert að vera minni þegar horft er til árslauna.
Það er líka önnur sérkennileg staðreynd að á Covid tímum vorum við framlínustarfsmenn sem unnum okkar störf við miklar takmarkanir til að halda nauðsynlegum starfsgreinum gangandi í þágu öryggis fyrir samfélagið allt. Á þessum tímum þurftum við að leggja mikið á okkur og fórum oftar en ekki lengra en okkar starfslýsing sagði til um. Allir voru tilbúnir að láta allt ganga upp og gerðum við það af heilum hug svo við myndum nú komast í gegnum þetta saman. Já, þessi frasi að við erum í þessu saman heyrðist oft á Covid tímum. Á þessum tímum vorum við mikilvæg.
En er hvernig er þá staðan í dag? Er okkar starf ekki eins mikilvægt og eigum við ekki einmitt að vera í þessu saman? Eru sveitarfélögin ekki enn þá með okkur í liði? Erum við ekki nægilega mikils virði til að samþykkja okkar kröfur í þessari kjarabaráttu? Ég bara spyr.
Við leikskólastarfsfólk viljum bara að starf okkar sé metið af verðleikum og að við sitjum við sama borð hvort sem við tilheyrum BSRB eða ASÍ.
Ég skora hér með á sveitarfélögin sem sitja við samningaborðið að virða kröfur okkar og mikilvægi okkar starfa. Því saman getum við meira.
Lifið heil.
Hildur Sveinsdóttir
Höf. er leikskólastarfsmaður í Klettaborg í Borgarbyggð.