Það er forgangsmál fyrir og eftir kosningar að bæta hag sauðfjárbænda

Haraldur Benediktsson

Ásmundur Einar, nýr oddviti framsólnar í NV kjördæmi, ritaði grein í síðasta Skessuhorn.  Nú um leið og hann er boðinn velkomin aftur í pólitík, þá er ástæða að nefna að fjarvera hans frá henni var ekki svo löng að hann geti ekki þurft að gera betur í umræðu um þann alvarlega vanda sem sauðfjárbændur glíma við.

 

Engar aðgerðir hafa verið samþykktar

Það ætti okkur Ásmundi báðum að vera umhugsunarefni að nokkrum mánuðum eftir samþykkt á 10 ára samningum við bændur – að þessi alvarlega staða sé komin upp hjá sauðfjárbændum. Þá skulum við ekki heldur gleyma áhrifum af tollasamningi sem ráðherrar Framsóknar gerðu að eigin frumkvæði við ESB, íslenskan landbúnað í heild sinni og þær afleiðingar hafa stutt aðgerðir Evrópusambandsins vegna Úkraníudeilunnar. Allt undir forustu Framsóknar.

Það er samt óhjákvæmilegt að nefna, vegna greinar Ásmundar, að engar tillögur fráfarandi landbúnaðarráðherra voru samþykktar. Hann þekkti þær tillögur vel því sannarlega snertu þær verulega hans hag, og okkar allra sem búa í sveitum. Ég mótmælti strax hugmyndum sitjandi landbúnaðarráðherra og setti fram málefnaleg rök gegn þeim, sem ég rek ekki frekar hér.

 

Höfum ekki langan tíma

Ég tel að við höfum aðeins þennan vetur til að vinna þannig að málum að sauðfjárbændum sé sköpuð umgjörð til áframhaldandi búskapar. Strax eftir kosningar mun Sjáflstæðisflokkurinn gera að forgangsmáli að unnið verði með bændum að aðgerðum sem til lengri tíma bæta afkomu þeirra og til skemmri tíma að takast á við vanda dagsins í dag.

Forsætisráðherra og ráðherra byggðmála hafa undanfarna daga reynt að fá samþykki fyrir neyðaraðgerð fyrir sauðfjárbændur. Sú aðgerð er fyrst og fremst til að gera sláturhúsum mögulegt að hækka aftur verð til bænda. Það er eina aðgerðin sem dugar, fyrir alla bændur. Þar reynir á fjármálaráðherra Viðreisnar að styðja þær tillögur, enda miða þær að því að nota varasjóð ríkisins.

 

Sameinum hagsmuni sauðfjárbænda, sundrum þeim ekki

Það er ekki einfalt að bregðast við. Forgangsmál er að sauðfjárbændur hafi sameiginlega hagsmuni. Með núverandi umhverfi eru sauðfjárbændur tvístraður og ósamstæður hópur.  Takist það ekki er ekki mögulegt að endurreisa afkomu bænda í sauðfjárrækt.  Til að þetta sé hægt þarf ekki að ganga gegn hagsmunum einstakra hópa – eins og núverandi samningar snúast að einhverju leyti um. En það þarf kjark til að stokka upp núverandi umhverfi og leggja út í aðgerðir með skýrum markmiðum.

Svarið er ekki að stefna að stórfelldri fækkun fjár – en frekar að stefna að meiri verðmætum, vöruþróun og hagkvæmari og heilbrigðara umhverfi – í rekstri sláturhúsa, verkaskiptingu þeirra og starfsumhverfi bænda. Ásamt fleiri stoðum undir byggð og búskap. En um það ræðum við Sjálfstæðismenn nú á vel sóttum fundum um byggða- og landbúnaðarmál.

 

Pólitík

Ásmundur verður líka að kannast við eigin verk og ábyrgð á stöðu bænda. Svo lengi var hann ekki fyrir utan pólitík að hann geti sent allt á núverandi ríkisstjórnarflokka. Aðrir Framsóknarmenn en hann hafa líka reynt að halda því fram að Sjáflstæðisflokkurinn hafi afgreitt frumvarp um breytingar á starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins, það er ekki rétt og hrein ósannindi. Gerum pólitíkina ekki verri en hún þarf að vera.

Ásmundur gerir því skóna í grein sinni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samið um að fórna landbúnaðinum. Ekki frekar en við bárum ábyrgð á vali Framsóknarflokksins á vali ráðherra í ríkisstjórn 2013, þá ber Sjálfstæðisflokkurinn ekki ábyrgð á vali Viðreisnar á ráðherrum sínum.  Auðvitað var ekki samið um að fórna landbúnaði líkt og Ásmundur reynir að halda fram, það veit hann vel.

Ég er hef aldrei dulið þá skoðun mína hve ósáttur ég var að láta svo mikilvægt ráðuneyti til Viðreisnar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er.  En engin varanlegur skaði var unninn á þessum 8 mánuðum. Reyndar hafa sjaldan verið meiri fjárfestingar í landbúnaði en sl. mánuði.

En það ætti okkur öllum að vera umhugsunarefni hvers vegna hægt er að nota fjöregg atvinnugreina eins og sjávarútveg og landbúnað til að afla sér pólitískra stundar vinsælda. Það gerði sitjandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og reyndi að klæða það í hagsmunagæslu fyrir neytendur – þegar allt eins mætti segja að verið var að verja hagsmuni þeirra sem fjárfest höfðu í stórum verslanasamsteypum.

Stjórnarmyndunin í jan síðastliðnum var eftir lagnvarandi stjórnarkreppu. Veruleikinn var að engin vildi vinna með Framsókn vegna innanbúðarvanda, nema Sjálfstæðisflokkurinn.

VG og aðrir flokkar höfðu ekki kjark og getu til að setjast í ríkisstjórn. Já ég finn vel fyrir því að Viðreisn var falið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það reyna pólitískir andstæðingar okkar að nota sér núna. Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei samþykkt að veikja íslenskan landbúnað.

Framsóknaflokkurinn mætti fá gott frí frá því að leiða mál landbúnaðarins, atvinnugreinin þolir varla meira af svo góðu í nánustu framtíð.

 

Framtíðin

Til lengri tíma er nauðsynlegt að vinna í samstarfi við bændur að langtíma aðgerðum.  Við Óli Björn Kárason alþingismaður, leggjum einmitt fram á fundum okkar um byggða- og landbúnaðarmál hugmyndir að eflingu sveitanna. En frá vanda sauðfjárbænda hleypur Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Þau er forgangsmál – fyrir og eftir kosningar.

 

Haraldur Benediktsson

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi.