Það er bjart yfir Borgarbyggð

Thelma Harðardóttir

Atvinnumálaþing Borgarbyggðar var haldið á dögunum og var þar margt fróðlegt á dagskrá. Í upphafi var atvinnusaga Borgarbyggðar rifjuð upp, farið yfir á hvaða grunni við byggjum og hvað það var sem laðaði fólk hingað í denn. Atvinnumál í Borgarbyggð hafa tekið miklum breytingum í gegnum áratugina, atvinnuvegir risið og hnigið í takt við tíðarandann og atvinnuöryggi verið samkvæmt því. Í kjölfar þess að litið var í baksýnisspegilinn var einnig rýnt í hvað framtíðin geti borið í skauti sér.

Heimsfaraldur hefur gjörbreytt landslagi atvinnumála hér á landi og um allan heim. Allt í einu eru störf, sem áður fyrr voru aðeins í boði í Reykjavík, orðin störf án staðsetningar sem ýmist eru unnin að heiman eða frá starfsstöðvum víða um land. Færra fólk lætur vinnuna stjórna búsetu sinni og fleiri eru farnir að sjá lífsgæðin sem fólgin eru í því að búa í minni bæjum eða dreifbýli. Í Borgarbyggð dagsins í dag eru það ekki lengur bara sértækir atvinnuvegir sem lokka að, heldur lífsgæðin sem við höfum upp á að bjóða og tækifærin sem við veitum íbúum til auðugra lífs. Verkefni sveitarstjórnar á komandi kjörtímabili er því að standa vörð um fjölskylduvænt samfélag með hagstæðu húsnæðisverði og lífsgæðum sem skara fram úr. Þá þarf ný sveitarstjórn einnig að greiða leið frumkvöðla og hvetja þá til dáða sem hér vilja stofna og reka fyrirtæki.

Fjölskylduvænt samfélag í allri Borgarbyggð

Það er brýnt að tryggja framboð atvinnu- og íbúðarhúsnæðis um allt sveitarfélag á komandi misserum ef sveitarfélagið á að halda áfram að vaxa. Fyrst og síðast þarf þó að standa vörð um þá innviði sem fjölskyldufólk þarfnast. Þar ber helst að nefna leik- og grunnskóla og þjónustu sem þeim tengjast. Vinstri græn í Borgarbyggð munu standa vörð um leik- og grunnskóla sveitarfélagsins, enda teljum við að slíka þjónustu eigi ekki að þurfa að sækja um langan veg. Við þurfum að tryggja að félagsþjónusta og velferðarkerfi starfi eftir hugmyndafræðinni um snemmtæka íhlutun og gæta þess að fjölbreytt og aðgengilegt tómstundastarf standi öllum börnum til boða, hvar sem þau búa. Ein forsenda þess að sveitarfélag geti talist fjölskylduvænt er að börnum bjóðist leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi sleppir. Það er mikilvægt að sporna við því að í Borgarbyggð myndist biðlistar á leikskóla, hvort sem það er í Borgarnesi eða í dreifbýlinu.

Innviðir og viðhald á oddinn

Sterkir innviðir og viðhald þeirra er einnig eitthvað sem laðar íbúa að og heldur fólki í búsetu innan sveitarfélagsins. Reikna þarf upp árlegan viðhaldskostnað og leita leiða til þess að fullnægjandi viðhald eigi sér stað reglulega svo ekki rati í ógöngur, líkt og mygluskemmdir sem fundist hafa í skólabyggingum sveitarfélagsins. Það getur verið dýrkeypt að missa heilu byggingarnar úr notkun, tímabundið eða alfarið. Til að koma í veg fyrir slíkt þarf að tryggja að alltaf séu teknir frá fjármunir fyrir nauðsynlegt viðhald í gerð fjárhagsáætlana.

Störfum sem unnin eru í gegnum internetið mun aðeins fjölga á komandi árum og er það þakkarvert, enda mun losun gróðurhúsalofttegunda minnka í kjölfarið og tíma fólks er betur varið en í ökutæki. Gera þarf þá kröfu að gott síma- og internetsamband sé til staðar í sveitarfélaginu öllu enda um brýnt öryggisatriði að ræða.

Getur ekki klikkað

Á næstu árum fer í hönd mjög spennandi tími í sögu Borgarbyggðar. Sóknarfæri eru mikil í landbúnaði og grænmetisrækt, enda mikilvægi þess að huga að sjálfbærri matvælaframleiðslu eflaust sjaldan verið meiri á tímum hlýnunar jarðar og stríðs. Borgarbyggð býr að sterkri landbúnaðarhefð og háskólum sem tryggja okkur getu til rannsókna og nýsköpunar. Með sterkum innviðum, markmiðum um barnvænt samfélag og góðri markaðssetningu mun Borgarbyggð verða einn ákjósanlegasti staður landsins til að búa á. Allt þetta getur orðið að veruleika ef rétt er haldið um stjórnartaumana. Vinstri græn bjóða upp á skýra sýn fyrir Borgarbyggð alla, fólkið, náttúruna og samfélagið.

 

Thelma Harðardóttir.

Höf. er oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð.