Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng

Ásmundur Ólafsson

Sjávarútvegur á Íslandi hefur nánast frá landnámi verið undirstöðuatvinnuvegur landsmanna. Skipaskagi er eitt fyrsta sjávarútvegsþorp sem myndaðist á landinu, en það var á sautjándu öld, á dögum hins hæstráðanda Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti, sem þá var höfuðstaður Íslands. Matarkisturnar í Skálholti voru flesta daga hlaðnar fiski frá Skipaskaga; fullverkuðum harðfiski og eitthvað af saltfiski, en harðfiskur var áður fyrr einn helsti matur Íslendinga og hann gjarnan borðaður með smjöri eða sölvum. Ekki skaðar að harðfiskur er sérlega próteinrík næring.

Útgerð var áfram stunduð af fullum krafti frá Akranesi, og þar var stórt útver á 19. öld, og um 1870 réru þaðan 78 bátar. Telur Lúðvík Kristjánsson rithöfundur að óvíða á landinu hafi verið jafn stór bátafloti og þar.

Um miðbik síðustu aldar náði sjávarútvegur hvað hæstum hæðum hér á Akranesi og voru flestir íbúar bæjarins að mestu leyti tengdir honum á einn eða annan hátt. Þessi uppgangur í atvinnulífinu hafði víðtæk áhrif bæði í íþróttum sem og alls kyns menningarstarfsemi og of langt mál upp að telja.

Til gamans getum við skoðað vertíðina eitt árið; 1941. Það ár sýnir svo ekki verður um villst hvert stefnir. Á vetrarvertíðinni 1941 gengu frá Akranesi 22 bátar með 240 mönnum. Meðalróðrafjöldi þessa fjóra mánuði (jan.-maí) var talinn vera 80. Eins og sjá má á róðrafjöldanum hafa gæftir verið ágætar og veiðarfæratap var tiltölulega lítið. Í ársbyrjun 1942 voru íbúar Akraness 1850 að tölu, eða fjórum sinnum færri en í dag, og gefur þetta til kynna mikilægi sjávarútvegsins á þessum árum.

Aflatölur og aflahlutir árið 1941

Mestan afla í róðri mun v.b. Fylkir hafa fengið, um 17 smálestir. Fylkir MB-6 var 40 brúttólestir, gerður út af Þórði Ásmundssyni. Skipstjóri var Njáll Þórðarson. Aflahæstur á vertíðinni var v.b. Egill Skallagrímsson MB 73, sem gerður var út af Haraldi Böðvarssyni. Skipstjóri var Ragnar Friðriksson. Egill Skallagrímsson var 28 brúttólestir að stærð. Aflamagn hans yfir vertíðina var 500 smálestir af fiski, slægðum með haus. Auk þess hefur verið saltaður afli hans úr fjórum róðrum. Aflaverðmæti þessa báts, miðað við nýjan fisk og hrogn var um 220 þúsund krónur. Nú árið 2019 væru þetta umreiknað ca 35 milljónir króna.

Aflamagnið á þessum árum var miðað við slægðan fisk þannig að 500 tonna afli 1941 er í raun 625 tonn (25% hækkun). Lifrarfengur þessara hæstu báta var á bilinu frá 35 til 40 þúsund lítrar. Hér ber að geta að v.b. Höfrungur MB 98 var með allt að því eins mikinn afla og Egill. Skipstjóri á Höfrungi var Ástvaldur Bjarnason, og báturinn í eigu H.B. & Co.

Hér má árétta að Egill Skallagrímsson var aðeins 28 tonn og aflaði 500 tonn, en 20-30 árum síðar voru hæstu bátar á vetrarvertíð með um 600 til 900 tonn, en skipin orðin 100 til 200 brúttólesti og tækjabúnaður og veiðarfæri allur annar og fullkomnari.

Aflabrögð Akranesbáta voru óvanalega jöfn árið 1941 og stunduðu flestir bátanna veiðar með línu og réru að jafnaði með 30 til 34 bjóð í róðri.

Áætlaður aflahlutur í þessa fjóra mánuði vetrarvertíðar árið 1941 voru um 10.000 krónur, sem umreiknaðar væru á núvirði um kr. 1.600.000.

Skipstjórar

Eins og áður sagði var Egill Skallagrímsson talinn aflahæstur. Ragnar skipstjóri var 33 ára gamall og hafði þá verið skipstjóri í 10 ár. Hann var áður meðeigandi og skipstjóri á v.b. Hafþóri, sem þá var oft báta hæstur með afla. Meðeigendur með Ragnari voru vélstjórarnir Þorbergur Sveinsson á Setbergi (Setbergur) og Hjalti Benónýsson á Haukabergi. Ragnar Friðriksson og Egill Skallagrímsson voru ekki aðeins hæstir árið 1941, heldur einnig árin 1942, 1944, 1945 og 1946, og var vertíðaraflinn hjá þeim að meðatali milli 500 og 700 tonn. Ragnar var um áratugaskeið skipstjóri á vélbátum frá Akranesi; mikill aflamaður, eins og áður hefur komið fram og orðlagður sjósóknari. Hann var ókvændur og barnlaus og átti síðast heima á Auðnum, Vesturgötu 46.

Frumkvöðlar

Frumkvöðlar í skipstjórn á vélbátunum urðu margir hverjir landsfrægir sjósóknarar og aflamenn, en margar fórnir voru því miður færðar af sjómönnum við skyldustörfin á hafinu. Brautina höfðu rutt bræðurnir Jón og Bjarni Ólafssynir á Litlateig og bræðurnir Einar og Skafti Jónssynir frá Hofi, en þeir höfðu drukknað ásamt félögum sínum, allt vöskum sjómönnum, á fjórða áratugnum.

Á þessum árum komu í kjölfarið margir aflaskipstjórar, sem áttu eftir að gera garðinn frægan. Nægir að nefna Akrabræður, þá Bergþór, Jóhannes og Þórð Guðjónssynir; einnig bræðurna frá Sýruparti, þá Jóhannes á Auðnum og Þórð Sigurðssyni og bræðurna frá Sigurvöllum þá Björn og Valdimar Ágústssyni. Tveir bræður frá Sóleyjartungu, þeir Halldór og Einar Árnason, voru nafntogaðir; einnig Einar Ingjaldsson á Bakka, Ástvaldur Bjarnason frá Sýruparti, Njáll Þórðarson úr Georgshúsi, Valdimar Kristmundsson í Mörk, Ármann Halldórsson á Hofteigi, Sigurbjörn Jónsson í Tjörn, Kjartan Helgason í Lambhúsum, Hákon Halldórsson á Hofteigi, Brynjólfur Nikulásson á Háteigi, Þóroddur Oddgeirsson frá Svalbarða og svo mætti lengi telja.

Margir áttu einnig eftir að flytja til Akraness á þriðja og fjórða áratugnum; fóru þar í fararbroddi skipstjórarnir og bræðurnir Oddur og Sigurður Hallbjörnssynir frá Súgandafirði, bræðurnir Loftur og Þorkell Halldórsson frá Bíldudal, Marinó Árnason frá Ísafirði, Elías Guðmundsson frá Hafnarfirði, Kristinn Jónsson úr Dýrafirði og fleiri mætti telja.

Tímamót

Mjög afdrifarík tímamót urðu hér á Skaganum fyrir nokkrum árum þegar ráðamenn bæjarins og stærsta útgerðarfyrirtækisins hvöttu til sameiningar við útgerðarrisann Granda í Reykjavík. Það reyndust vera mikil mistök fyrir byggðina, og má segja að sögu Akraness sem sjávarútvegsbæjar hafi þá að miklu leyti verið lokið. Því meiri ástæða er að hvetja til þess að ritun á sögu Akraness verði lokið sem fyrst, það er tímabilinu frá 1800 til 2000, en skriflegar heimildir munu vera fyrir hendi, bæði hér í Héraðsskjalasafninu, sem og hjá Gunnlaugi Haraldssyni, þjóðháttafræðingi og fyrrverandi safnverði í Byggðasafninu í Görðum, sem ritaði fyrstu tvö bindin.

 

Ásmundur Ólafsson

Heimildir: Fiskifélag Íslands og Hagstofa Íslands.

Höfrungur MB 98, smíðaður á Akranesi 1929. Aflaskip; skipstjóri 1941 Ástvaldur Bjarnason; báturinn var í eigu Haraldar Böðvarssonar. Myndhöfundur: Árni Böðvarsson.

Fleiri aðsendar greinar